145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Fornaldarþrá og ekki það þjóðfélag sem hv. þingmaður vill — mig langar að spyrja aðeins nánar út í það því að hv. þingmaður hefur í umræðu um ýmis mál, getum við sagt, talað um vinnubrögðin og að hv. þingmaður mundi vilja sjá hér annars konar vinnubrögð viðhöfð á þessum vinnustað. Mig langar þess vegna að spyrja út í vinnubrögðin við fjárlagavinnuna og hvað hv. þingmaður hafi um þau að segja. Getum við talið okkur sæmd af þeim á Alþingi?

Hér hafa komið inn stórar breytingar. Háar upphæðir eru að bætast við þannig að það er að verða ljóst að afkoma ríkissjóðs er mun minni en gert var ráð fyrir í upphafi. Þó hefur ekki verið fallist á þá beiðni okkar í minni hlutanum að fresta þingfundi og fara ofan í saumana á því hvað við erum í raun með í höndunum þannig að við erum að ræða um fjárlög við 2. umr. út í tómið án þess að allar tölur liggi almennilega fyrir. Þingmenn slumpa bara á breytingarnar sem þeim sýnast vera í spilunum. Telur hv. þingmaður þetta nógu gott? Viljum við hafa þetta svona?

Aðeins í lokin um þá framtíðarsýn sem endurspeglast í því að við reiknum með þessu slumpi okkar okkur niður á það að ríkissjóði verði skilað á núllinu með þessum fjárlögum: Er það nógu gott inn í framtíðina?