145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta innlegg. Hér gilda ákveðin höfundalög og Píratar hafa oft fengið þann stimpil á sig að vilja bara stela öllu frá höfundum, alltaf, en það er ekki alveg satt. Við erum bara að benda á að höfundaréttur má ekki og þarf ekki að fá að trompa sjálfsögð mannréttindi. Hins vegar hefur höfundurinn, í þessu tilfelli Guðjón Samúelsson, samkvæmt gildandi höfundalögum einkarétt á því að birta verk sín í upphaflegri eða breyttri mynd. Mér finnst full ástæða til að bera virðingu fyrir því, sérstaklega þegar við erum að tala um hús, arkitekta og fleira í þeim dúr. Þetta er mikið verk. Þetta er nokkuð sem skilur miklu meira eftir sig en kannski lag sem er gefið út á stafrænu formi. Kostnaðurinn við byggingu og allt við það er miklu meiri, en auðvitað gilda sömu lögmál. Það er það sem við höfum bent á, að það er munur á því hvort maður sé arkitekt eða lagahöfundur hvað varðar umfangið. Hús mun vonandi standa í 100 ár þannig að mér þykir alveg sjálfsagt að nýta þann mannauð sem við höfum núna og gefa arkitektum tækifæri til að setja mark sitt á Reykjavíkurborg næstu 100 árin. Sú fornaldarþrá sem endurspeglast í nefndaráliti meiri hlutans er í sjálfu sér skondin en lýsir líka ákveðnum vilja til að skilja eitthvað eftir sjálfa sig en ekki endilega aðra.