145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara eitt áður en ég fer yfir í næsta mál, annað í þessu er líka að 1920 voru hús hönnuð út frá ákveðnu notagildi sem er allt annað í dag. Við hönnum hús með öðrum hætti af því að við höfum aðrar þarfir og leggjum aðrar áherslur. Við erum kannski meira með sameiginleg rými og stærri vinnuaðstöðu þar sem fleiri eru saman í einu rými o.s.frv. Breytingarnar í því hvernig við nálgumst hlutina eru allt aðrar. Tæknin hefur líka breytt miklu o.s.frv. Ef menn ætla að fara út í byggingu á nýju húsnæði á Alþingisreitnum á að horfa til þess að það eigi að standa til langs tíma út frá notagildi dagsins í dag og möguleikunum á breytingum á því inn í framtíðina en ekki aftur á bak. Þetta er svolítið sérstök nálgun.

Stóra málið sem ég ætlaði samt að ræða hérna við hv. þingmann er að ég hef lengi verið mikil áhugamanneskja um opið bókhald ríkisins þannig að menn geti skoðað nánast allt og grúskað í því sem ríkið er að gera og það verði gert til að reyna að minnka tortryggni í garð hins opinbera og hvernig það nýtir fjármuni sína. Eins og hv. þingmaður og fleiri píratar hafa nefnt er þetta enn fremur ákveðið aðhald sem síðan getur leitt af sér hagræðingu. Á síðasta kjörtímabili lögðum við af stað í þann leiðangur að opna bókhaldið betur og við settum ákveðin gagnasöfn sem hrágögn út á netið þannig að þriðji aðili gæti síðan unnið með þau og birt úr þeim upplýsingar. Ég mundi vilja sjá gengið enn lengra, að menn væru í raun og veru alltaf að sýna þessi gögn í rauntíma þannig að alltaf lægju fyrir upplýsingar (Forseti hringir.) sem væri hægt að nálgast, þess vegna upplýsingar um einstaka reikninga. Hvað telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að við eigum að ganga langt í þessu efni? Hversu mikið eigum við að hafa þarna úti?