145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sem betur fer komin býsna langt með það að vera velferðarsamfélag þó að ákveðnar stoðir séu orðnar veikari.

Ég held að við séum öll sammála um að ríkið eigi að sjá um ákveðna hluti, endurdreifa fjármunum til þess að tekjujafna. Ríkið á líka að sjá til þess að við séum með fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, menntakerfi o.s.frv.

Á meðan þessi kerfi eru öll að verða flóknari er eðlilegt að þau verði líka fjárfrekari. Þá spyr maður sig hvaða langtímahugsun það sé að losa sig við tekjur, eins og menn hafa verið að gera hér. Ég verð að segja alveg eins og er að við höfum verið mjög ósátt við að forgangsröðunin eftir hrun hafi verið sú að það sé algjört forgangsmál að lækka veiðigjöldin, algjört forgangsmál að losa sig við raforkuskattinn og auðlegðarskatt o.s.frv. á meðan við vitum að það bíða okkar stór verkefni á sviði heilbrigðismála. Það bíður okkar líka sú staðreynd að við munum þurfa að gera átak í því að hífa upp laun eldri borgara og öryrkja. Það eru því stór verkefni sem bíða og sömuleiðis á sviði menntamála. Við vitum að hver króna sem við setjum út til menntamála skilar sér margfalt til baka, vegna þess að kakan stækkar þegar við fjárfestum í menntun.

Mér finnst þetta vera röng nálgun, mér finnst hún skammsýn og mér finnst menn vera fastir í einhverjum kreddum, menn eru fastir í þessari hugsun: Við sjálfstæðismenn höfum alltaf talað fyrir einföldu skattkerfi og lægri sköttum og höfum alltaf selt okkur æðislega vel í kosningabaráttu út á það. Í staðinn ættu menn að horfast (Forseti hringir.) í augu við nýjan veruleika sem er sá að stundum þarf að leggja út peninga til að fá til baka.