145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að kerfin eru alltaf að stækka og við munum þurfa að leggja meiri peninga í þau til framtíðar. Svo auðvitað bætist það við sem ég náði ekki einu sinni að nefna í fyrra andsvari mínu sem er að það kemur að því að við þurfum að fara að borga niður skuldir. Það er ekki útlit fyrir að hægt verði að gera eitthvað sérstakt í því á næsta ári því að með öllum þeim útgjaldaviðbótum sem hafa verið að koma meðal annars núna á síðustu dögum þá lítur út fyrir að við megum prísa okkur sæl ef það verður nokkurra milljarða hagnaður á ríkissjóði á þessu ári.

Ég velti þessu með framtíðarsýnina dálítið mikið fyrir mér og ég veit hreinlega ekki hvort ég er jafn bjartsýn og hv. þingmaður um að það sé í rauninni svo að við séum öll sammála um að hafa hér velferðarsamfélag. Mér finnst nefnilega ýmislegt benda til þess, og ég veit ekki hvort það er vegna skorts á framsýni, að menn haldi að þetta muni reddast einhvern veginn án þess að taka fé inn í ríkissjóð. Ég er í alvörunni farin að velta því fyrir mér hvort það sé kannski hjá ákveðnum öflum í samfélaginu vilji til þess að hafa samfélag þar sem þeir ríku hafa það gott og geta borgað fyrir nauðsynlega þjónustu og hinir mega hreinlega éta það sem úti frýs.