145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fór í fyrstu ræðu minni yfir ýmis atriði sem einkanlega lutu að hagsveifluleiðréttri afkomu eða frumjöfnuði ríkissjóðs og nokkrum þáttum á tekjuhlið frumvarpsins og lét staðar numið. Auðvitað eru fjölmörg efni í umfjöllun um fjárlögin sem nauðsynlegt er að fara í en það er orðið langt liðið á þennan dag og fátt af stjórnarliðum í húsi þannig að það er kannski ástæða til að láta brýnustu efni frumvarpsins bíða umfjöllunar í ræðu á mánudaginn kemur svo að það verði einhverjir viðmælendur um þau efni.

Það verður ekki hjá því komist að ávarpa fyrst það sem forseti var að kynna á forsetastóli áður en ég gekk í ræðustól. Dreift er á fundinum frumvarpi Sigríðar Á. Andersen um ríkisábyrgð fyrir deCode. Er þetta ekki til að kóróna framgöngu stjórnarliðsins eða ætti ég að segja toppa framgöngu stjórnarliðsins hér á aðventunni? Hefur stjórnarmeirihlutinn algerlega misst allt meðalhóf, alla yfirvegun, alla hæfni til málefnalegrar umfjöllunar og skoðanaskipta um fjármál íslenska ríkisins og þarfir borgaranna? Af því að borgari í landinu leyfir sér að skrifa grein í dagblað og gagnrýna að Landspítalinn fái ekki nægilega fjármuni til að sinna sjúku og veiku fólki, greinarhöfundur verandi alþjóðlega viðurkenndur læknir með býsna góða þekkingu á því hvað til þarf, þá kemur stjórnarþingmaður fram og flytur frumvarp á Alþingi sem beinist sérstaklega gegn þessari persónu eftir að forsætisráðherrann hefur kosið að toppa þetta með því að skrifa grein í dagblað gegn borgara í landinu, einum einstaklingi, sem ég man ekki að hafi gerst áður. Er það þannig að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt til framlagningar þingmál sem beinist að einstaklingi sem hefur leyft sér að gagnrýna þessi málefni, (Gripið fram í.) lög sem raunar Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddsson beittu sér sérstaklega fyrir að setja á í sinni tíð? (Gripið fram í.) Það hefur aldrei þurft að grípa til ríkisábyrgðarinnar, hún aldrei hefur verið virkjuð, er saga, hefur ekkert að gera með daginn í dag. Málið er þess vegna einvörðungu flutt til að senda borgara í landinu þau skilaboð að ef stjórnarmeirihlutinn er gagnrýndur eða rök færð fyrir því að sjúkum og veikum sé ekki sinnt eins og vert væri þá muni menn finna fyrir því á Alþingi Íslendinga. Hvað er næst?

Eftir að Kári Stefánsson steig fram hefur biskup Íslands fjallað á opinberum vettvangi um þá tillögu sem hv. þm. Jón Gunnarsson felldi í vikunni. Biskupinn yfir Íslandi hefur skrifað um stöðu aldraðra og öryrkja í samfélaginu, um tillöguna um að þeir fengju kjarabætur í fjáraukalögunum. Megum við þá búast við því að einhver þingmanna Sjálfstæðisflokksins muni flytja hér tillögu um að aukin fjárveiting til þjóðkirkjunnar verði afturkölluð?

Á hvaða plan eru stjórnarhættirnir í landinu komnir? Getum við ekki bara fengið lagt fram á fyrsta degi þingsins fjárlagafrumvarp sem endurspeglar stjórnmálastefnu ákveðinna stjórnmálaflokka, rætt það efnislega, gagnrýnt og fært fram rök með og á móti á Alþingi, í Fréttablaðinu og annars staðar í samfélaginu án þess að þurfa að vegast á með svo ósæmilegum hætti? Svo ég tali ekki um það sem við höfum helst orðið vitni að síðustu sólarhringana þegar háskólagengið fólk með próf, margt með glæsilega starfsferla, vel efnuð búið og í háum opinberum stöðum telur að í umfjöllun um flóttamenn í neyð eða fátækt fólks sem á ekki málungi matar séu stjórnmálaleiðtogarnir, háskólaborgararnir og efnafólkið fórnarlömbin sem eigi að auðsýna sérstaka samúð, vorkenna og hugsa til í bænum sínum á kvöldin vegna þess að það sé talað svo illa um þau. Mér kemur þetta á óvart þó að ég átti mig auðvitað á því að málefnalegar hrakningar stjórnarmeirihlutans með þetta uppkast að fjárlagafrumvarpi eru þannig að það er kannski allt orðið leyfilegt í þeirra huga. Ég hélt satt að segja að hér á þingi sætu menn og konur sem treystu sér til að mæla fyrir sínum skoðunum og gagnrýna sjónarmið annarra án þess að þurfa að fara niður á persónulegt plan, eins og ég nefndi raunar líka í fyrri ræðu minni sem varðaði þá framgöngu sem ýmsir gestir fjárlaganefndar hafa mátt þola.

Ég vil í þessu efni minna á hvernig er hægt að standa öðruvísi að hlutum. Mér er sérstaklega í minni það samtal sem hæstv. fyrrverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson heitinn, leiddi í kjölfar hrunsins. Það var engum blöðum um það að fletta að þá þurfti að fara í gríðarlega erfiðar aðgerðir á Landspítalanum. Það hefur oft verið dregið hér fram að þá var skorið niður og það er rétt að þá var skorið niður. Einkenndi fjárlagagerðina þá að ráðherra málaflokksins og forustumenn fjárlaganefndar væru að munnhöggvast við stjórnendur spítalans um hvað væri rétt og rangt eða andlegt ofbeldi eða eitthvað slíkt? Nei, virðulegi forseti. Auðvitað var öll þau ár þannig ástatt að spítalinn hefði þurft að fá meira og stjórnendur spítalans hafa eflaust fært fyrir því rök, en það fór fram samtal og starfsfólk og stjórnendur Landspítalans unnu þrekvirki í samvinnu við fjárveitingavaldið og stjórnvöld til að halda góðri og öflugri þjónustu á Landspítalanum þrátt fyrir öll þessi áföll. Þess vegna er það þyngra en tárum taki, þegar fólk hefur unnið slíkt þrekvirki í góðri samvinnu og góðu samstarfi og sýnt að það hefur ekki vílað fyrir sér að takast á við erfið verkefni með takmarkaða fjármuni, takast á við niðurskurð, takast á við það að þurfa að draga úr þjónustu, að núna þegar fjármunir sem eru til ráðstöfunar hafa í fimm ár samfleytt vaxið ár frá ári þurfi samtalið að fara fram með þessum hætti, við þær aðstæður.

Ástæðan fyrir því að við höfum rætt hér nokkuð vinnubrögðin í tengslum við fjárlögin er ekki bara tengd þessum fjárlögum. Ástæðan fyrir því er sú að margir undrast það að eftir efnahagsvöxt samfellt frá því snemma á kjörtímabili ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sterkan og öflugan, og auknar tekjur í ríkissjóð skuli ekki nást neitt meiri árangur í ríkisrekstrinum en raun ber vitni. Það að hér hafi verið afgreidd til 3. umr. fjáraukalög þar sem væri halli á ríkissjóði ef ekki væru teknir 25 milljarðar út úr Landsbankanum, annars væri bara halli á rekstri ríkissjóðsins, er auðvitað áhyggjuefni og vekur spurningar um það hvort skortur á ráðdeild, áætlanagerð, aðhaldssemi og reglufestu valdi þessu.

Það eru ástæður fyrir því að spurt er. Þær eru kannski í grunninn tvær. Önnur er sú að allir sem komið hafa að fjármálum, hvort sem það eru fjármál einstaklinga, heimila, fyrirtækja, félaga eða hins opinbera, vita sem er að lykill að árangri er festa og agi. Þegar svona mikil lausung er í ríkisfjármálum eins og einkennist af því að leggja fram uppkast að fjárlögum sem við 2. umr. er ekkert mark á takandi þá er það til þess fallið að draga úr því nauðsynlega aðhaldi sem þarf að vera með svo miklum fjármunum sem fjármunir ríkissjóðs eru. Það er ekki bundið við þetta fjárlagafrumvarp heldur hefur einkennt meira og minna allt þetta kjörtímabil.

Ég held að steininn hafi tekið úr í vegaframkvæmdum við fjölsótta ferðamannastaði, þó að það megi draga fram dæmi eins og hvernig þær aðgerðir sem allir vissu að þyrfti að fara í á ferðamannastöðum hafa verið fjármagnaðar. Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið 2015 var í engu gert ráð fyrir því að ráðast í vegabætur á mikilvægum ferðamannaleiðum, m.a. um Langadal, Uxahryggjaleið, Dettifoss og Kjósarskarð. Í vor var fyrirvaralaust tilkynnt að ríkisstjórnin hefði ákveðið og tilkynnt fjárlaganefndinni að verja í þessar vegaframkvæmdir eitthvað á annan milljarð kr. Síðan leið á vorið, sumarið og haustið og engar framkvæmdir urðu. Þá afturkallaði fjárlaganefndin að því er virðist með einhverjum skömmum til ríkisstjórnarinnar umræddar fjárveitingar og vegirnir eru enn ómalbikaðir. Út af fyrir sig var ákveðið að gera þetta ekki, en sú lausung sem í því felst að ákveða sitt á hvað, ekki í samræmi við fjárlög og þvert á önnur vinnubrögð, svo sem samgönguáætlun, og ætla að fara einn daginn í framkvæmdirnar en gera það ekki annan daginn er nokkuð gott dæmi um það hvernig haldið hefur verið á málum. Auðvitað gera fjölmargir aðilar í samfélaginu áætlanir sínar út frá því hvað ríkið kynnir í fjárlögum. Það verður að vera hægt að treysta því að þær fyrirætlanir haldi. Þetta tiltölulega litla dæmi, vegaframkvæmdir upp á ekki meira en hálfan annan milljarð, hefur náttúrlega haft áhrif á fjölda fólks og fyrirtækja og ákvarðanir þeirra, en svo urðu framkvæmdirnar að engu.

Þegar ég tók sæti í fjárlaganefnd fyrst, undir forustu manna eins og Einars Odds Kristjánssonar heitins, þá var það að heita meginregla að frumvarpið væri tilbúið við 2. umr. sem er efnisumræðan um málið og það tæki litlum sem engum breytingum milli 2. og 3. umr. vegna þess að það eru svo fjölmargir þættir í fjárlagafrumvarpinu sem hafa afleiðingar og áhrif á heilu landsvæðin, á einstakar atvinnugreinar, á hagkerfið í heild sinni, á vaxtastig, á viðskiptajöfnuð og á það hversu fýsilegt kann að vera að fjárfesta hér og þar og þess vegna verður heildarmyndin að liggja fyrir þegar þingið tekur fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar.

Það er þess vegna ekki boðlegt að í þessu frumvarpi séu ekki bara milljarðaskekkjur heldur tugmilljarðaskekkjur sem enginn veit í sjálfu sér hvernig á að lenda við 2. umr. málsins, að 2. umr. um fjárlögin fari fram án þess að búið sé að skrifa inn í frumvarpið þætti eins og áhrif stöðugleikaframlaganna á fjárhag ríkissjóðs sem eru auðvitað umtalsverð þó að það megi gagnrýna að ríkisstjórnin hafi heldur bilað í hnjáliðunum þegar hún var að semja við erlenda kröfuhafa, sérstaklega núna þegar við sjáum að samningarnir hafa verið svo hagstæðir erlendum kröfuhöfum að þeir hafa flykkst til landsins og mætt sem aldrei fyrr á kröfuhafafundi með yfir 90% fundarsókn. Þessir hagstæðu samningar fyrir hina erlendu kröfuhafa hafa verið samþykktir með tölum sem menn þekkja varla lengur í Rússlandi einu sinni, með rúmlega 99% samþykki. Engar andmælaraddir voru við þessum hagstæðu samningum. Það er auðvitað nauðsynlegt að sjá með hvaða hætti þessi þáttur kemur við fjárhag ríkisins á komandi ári og hvaða áhrif það hefur á helstu stærðir. Það er einfaldlega nauðsynlegt til að geta metið hin hagrænu áhrif frumvarpsins og áhrif á aðra þætti eins og gengisþróun, verðbólgu og aðra slíka þætti.

Einnig er mjög bagalegt að lesa um það í Morgunblaðinu í dag að lífeyrisskuldbindingin sé vanmetin um 20–30 milljarða kr. í frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Það er út af fyrir sig til bóta að lífeyrisskuldbindingin hafi verið færð inn en það verður auðvitað að vera hægt að treysta þeirri tölu sem þar er færð inn fyrir 2. umr. ef menn eru að færa hana inn á annað borð því að annars er lítið gagn að því. Við höfum síðan fjallað um þær tölur sem snúa að samningunum núna um málefni fatlaðra við sveitarfélögin, prentvilluna upp á 1.192 milljónir og þannig mætti áfram telja. Nóg um það að sinni.

Ég sakna þess að hafa ekki séð hv. þm. Ásmund Friðriksson í salnum og hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hann. Hv. þm. Björn Valur Gíslason reyndi það líka en ekki með neinum árangri því að þótt hann bæði um að ræða við Ásmund Friðriksson um störf þingsins þá mætti Ásmundur Friðriksson ekki til þess samtals. Úr því varð þess vegna eintal. Ástæðan fyrir því að Ásmundar hefur verið óskað við umræðuna er sú staðreynd að hann hefur lýst mikilli iðrun yfir því að hafa ekki vandað sig nægilega eða unnið nægilega vel að málum þegar hér voru teknar grundvallarákvarðanir um kjör aldraðra og öryrkja og hann hafi séð mjög eftir því og fundist hann þurfa að vinna betur að málinu og meira. Það er nú einu sinni þannig með iðrun að maður ætlast til þess að henni fylgi athafnir og að þingmaðurinn væri þá af meiri þrótti við 2. umr. málsins, þegar enn er hægt að gera breytingartillögur fyrir 3. umr. til að skýra sjónarmið sín um hin stóru atriði sem varða stóra hópa í landinu, og gerði okkur grein fyrir því hvort við í stjórnarandstöðunni hefðum fengið liðsmann í stjórnarliðinu því að það væri mikilvægur (Forseti hringir.) áfangi. Þá mundu ýmsir framsóknarmenn fara að hugsa til (Forseti hringir.) þess hvort þeir ættu ekki að fylgja dæmi annars stjórnarþingmanns og styðja okkur (Forseti hringir.) í kjaramálum aldraðra og öryrkja.