145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

vinnulag við fjárlagafrumvarp.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef lengi verið talsmaður þess að við bættum vinnubrögðin við fjárlagagerðina og meðhöndlun þingsins á fjárlagafrumvarpi. Ég tel að okkur hafi tekist vel á undanförnum árum að gera bragarbót á öllu verklaginu og séum með frumvarpi til laga um opinber fjármál að stíga enn frekari framfaraskref. Það er afskaplega mikilvægt að átta sig á því hversu stór hluti fjárlaganna hverju sinni eru reiknaðar áætlaðar stærðir. Það er ekkert nema eðlilegt að frá því að fjárlagafrumvarpið er lagt fram og þar til ný þjóðhagsspá kemur í hús og menn glöggva sig betur á því hvert stefnir í þjóðarbúskapnum að breytingar komi fyrir 2. umr. áður en fjárlaganefnd afgreiðir málið. Síðan að öðru leyti getur fjármálaráðherrann í sjálfu sér ekki borið ábyrgð á niðurstöðu meiri hluta fjárlaganefndar, en það er þó þannig að ríkisstjórnin skilar tillögum til nefndarinnar um ýmsar breytingar. Að þessu sinni var meiri hluti þeirra breytinga uppreiknaðar stærðir. Þjóðhagsspá gaf tilefni til þess að endurskoða tekjuhlutann og afleiðingin var m.a. sú sem við höfum verið að ræða í morgun að bætur almannatrygginga hækka og þá þarf að taka það með í reikninginn vegna þess að kjarasamningar frá því fjárlög voru afgreidd hafa þróast með þeim hætti.

Síðan eru það öll þessi litlu atriði eða þessir smáu liðir í fjárhagslegum stærðum sem eru hér og hvar í fjárlagafrumvarpinu. Ég er sammála því að oft hefur farið of mikill tími í það í þinginu að velta fyrir sér hvernig þeim er ráðstafað, en þingið hefur frjálsar hendur um það. Þinginu verður ekki sagt fyrir um það hvernig mál eru afgreidd í þingsal eftir að tillögur koma úr nefnd eða frá öðrum þingmönnum. Það er svo sannarlega ekki einsdæmi að menn taki í einstökum tilvikum fjárveitingar til verkefna utan safnliða. Fyrir því eru svo ótal mörg dæmi að ekki (Forseti hringir.) mundi endast dagurinn til þess að þylja þau öll upp.