145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

vinnulag við fjárlagafrumvarp.

[10:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum með þetta. Við vorum komin með ákveðið verklag sem ég taldi að við værum sáttari við og svo erum við að fara aftur til baka í gamaldags pólitík. Mér finnst það líka áhyggjuefni sem snertir kannski ekki stóra liði en það eru a.m.k. fjórir liðir í breytingartillögunum sem snúa að því að gera upp rekstrarhalla á ákveðnum fjárlagalið eða koma í veg fyrir rekstrarhalla á næsta ári. Hver ætlar að ákveða það að einhverjir fjórir liðir fái sérmeðferð, það séu þessir liðir en ekki einhverjir aðrir? Ég hefði haldið að fyrst þyrfti greiningu, menn þyrftu að vera komnir með reksturinn í jafnvægi, það þyrfti að vera eftirlit ráðuneytis með svona halaklippingum eða hvað við köllum þetta. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og algjörlega ekki til fyrirmyndar. Síðan erum við jafnvel að gagnrýna forstöðumenn stofnana fyrir framúrkeyrslu og á sama tíma er einn æðsti embættismaður í málaflokknum að reka Framkvæmdasjóð ferðamannastaða með eftirágreiðslum þar sem við erum alltaf að taka hlutina inn á fjáraukalög. Vinnubrögðin eru ekki nógu góð. Ég heyri hvað hæstv. ráðherra segir og ég er viss um að hann er sammála mér í mörgum málum, en ég geri kröfur um meira.