145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

hælisleitendur sem sendir eru til baka.

[10:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Við töldum ástæðu — og ég sagði frá því hér í þingsal — til að fara sérstaklega yfir það hvernig fara skuli með málefni Ítalíu. Það var unnin skýrsla og helstu sérfræðingar fengnir til að meta það hvernig fara skyldi með þá sem kæmu frá Ítalíu þegar kæmi að svokölluðum endursendingum. Eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir það mál, með hliðsjón af því sem nú hefur verið að gerast í nágrannalöndunum, og í samræmi við það verklag sem nú er í gangi þar, þá var það niðurstaðan í þessari skýrslu, hvað Ítalíu varðar, að óhætt sé að senda fólk til Ítalíu, enda sé hvert einstakt tilvik skoðað. Þetta er niðurstaða þeirra sem best þekkja. Þetta er ekki einhver niðurstaða sem kemur upp í höfuðið á mér, heldur er þetta gert að yfirlögðu ráði.

Jafnframt er sú niðurstaða áfram klár að það skuli ekki senda fólk til Grikklands. Til viðbótar, eins og við höfum rætt hér í þingsal, þá hefur Útlendingastofnun ekki verið að senda fólk til Ungverjalands. Við teljum að áfram þurfi að skoða það með miklu ítarlegri hætti og koma með röksemdargrundvöll fyrir því.

Svoleiðis stendur þetta mál núna. Hins vegar er það alltaf þannig að þetta þarf að meta alveg stöðugt. Þetta er gert, eins og ég segi, í samræmi við það sem gert er á nágrannalöndunum og í miklu samráði við þau. Þessi skýrsla liggur nú á vef innanríkisráðuneytisins eins og ég veit að hv. þingmaður veit.

Þegar kemur að því hvernig farið er að málum þegar verið er að senda fólk til baka þá finnst mér það líka hlutur sem við þurfum einhvern veginn að hafa meira uppi á borðum, hvernig það er gert. Nú er ég ekki bara að horfa á þessi nýjustu tilvik heldur almennt séð. Ég held að verklagsreglur, það verklag sem viðhaft er, þegar verið er að flytja fólk burtu af landinu, þurfi að vera mönnum ljósar. Ég ætla reyndar seinna í dag að hafa fund í ráðuneytinu einmitt út af þessu, (Forseti hringir.) til þess að fólk átti sig betur á því hvernig best er að gera þetta þannig að sem best traust sé á milli yfirvalda og almennings í landinu (Forseti hringir.) af því ég held að það sé afar mikilvægt að við reynum að byggja það betur upp.