145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

hælisleitendur sem sendir eru til baka.

[11:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það eru svo sem ekki neinar nýjar fréttir að hælisleitendur séu beittir harðræði. Það var nú þannig að árin 2008 og 2009 var algengt að fólk væri gripið um miðjar nætur og sent til Grikklands. Fólk sem í raun og veru hafði ekki myndað nein tengsl við Íslendinga af því að allt það fólk var geymt á Fit, og það var langauðveldast að fara með það í skjóli nætur og enginn veit um afdrif þessa fólks. Ég vil bara ítreka það að við verðum að tryggja að við sýnum hér mannúð í verki. Lengi hefur verið sagt að laga þurfi þessi mál og við erum alltaf að uppgötva nýtt og nýtt. Ef það hefði ekki verið blaðamaður sem komst að því að flytja ætti það í skjóli nætur þá mundi enginn vita hvers konar aðferðum væri beitt hér. Ég óska eftir því að ráðherra beiti sér, ekki í dag, ekki eftir viku, heldur núna til að tryggja að svona eigi sér ekki (Forseti hringir.) stað aftur.