145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

hælisleitendur sem sendir eru til baka.

[11:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Þessi málaflokkur er þungur, það vitum við öll. Við erum alltaf að tala um fólk, einstaklinga, og það leggur ríkar skyldur á herðar allra sem í þessu kerfi starfa. Ég held að það hljóti allir að gera sér grein fyrir því. Það verður líka þannig, ég er alveg viss um það, á næstunni, vegna þess að það er vaxandi þungi í þessari umræðu, að við munum stöðugt þurfa að vera að endurmeta þetta regluverk allt saman. Ég held að sé enginn vafi á því. Við sjáum það bara af því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Ég held nú reyndar að jafnvel þótt mönnum finnist að alltaf þurfi að gera betur, og ég get alveg fallist á það, þá hafi menn þó verið að reyna að stíga skref til þess að gera þetta kerfi opnara þannig að menn skilji betur hvað verið er að gera þarna. Í eðli sínu er það mjög flókið og mjög margslungið, eins og hv. þingmaður veit mætavel. Ég held að það standi upp á okkur öll, bæði ráðherra viðkomandi málaflokks og alla þá sem í þessu starfa, innan sem utan, að reyna að auka traust á það sem verið er að gera og ekki ganga út frá því að menn séu að reyna að ganga (Forseti hringir.) lengra en nauðsynlegt er, af því það er ekki viljinn. Það er ekki þess vegna sem þetta kerfi er til. (Forseti hringir.) Ég held við verðum að reyna að taka höndum saman um að reyna að tryggja að svo sé.