145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

móttaka flóttamanna.

[11:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að þegar við lögfestum barnasáttmálann töldum við að við tryggðum réttindi barna eins og þeirra albönsku sem við nú ræðum. Það er líka rétt hjá innanríkisráðherra að það er gott að þróa og endurmeta lagarammann og fagnaðarefni að hún ætlar að koma hingað inn með þá þverpólitísku samstöðu sem tókst um nýju útlendingana. En það er ekki nóg.

Lausn í þessu efni verður að innihalda lausn á málefnum þeirra albönsku barna sem við erum öll ósátt við að vísað hafi verið úr landi. Sem þingflokksformaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins vil ég segja við ráðherrann að ég er þess fullviss að Alþingi stendur ráðherranum opið. Þeim frumvörpum, málum eða öðrum erindum sem ráðherrann þyrfti að reka í þessu skyni verður tekið hér fagnandi. Við höfum oft sameinast um að flýta hér meðferð mála, afgreiða þau hratt og vel og ég held að samstaða sé um það nú þvert á flokka eins og oft áður.

En ég vil líka nefna í þessu sambandi sýrlensku fjölskylduna sem brottvísunarmál reis vegna. Ég vil líka spyrja ráðherrann: Er það ekki beinlínis hrópandi að ætla með annarri hendinni að taka á móti 500 sýrlenskum flóttamönnum en vísa með hinni hendinni þeim sömu í burtu? Um leið höfum við skrifað það sjónarmið inn í lögin og reglurnar sem Útlendingastofnun og úrskurðarnefndin fara eftir. Þurfum við kannski að gera það? Þurfum við að segja að taka eigi sérstaklega á málefnum sýrlenskra flóttamanna á meðan við erum að taka á móti þessum 500 manna hópi og að þeir geti talið inn í það sem hingað leita á þeim tíma?