145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áherslu hans á NPA vegna þess að ég held að NPA sé lykillinn að svo mörgu. Auðvitað er engin fullkomin lausn eða fullkomið verkfæri sem hið opinbera getur búið til en NPA virðist vera lykill að lausnum á fjöldamörgum vandamálum sem við höfum skapað fólki sem ekki getur ferðast um eins og við sem þurfum ekki hjálp til þess.

Það sem mér þótti áhugavert í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum sem kom út 2013, og við fjölluðum um hérna nýverið, er að hluti af þessu ofbeldi og þeirri kúgun sem fatlaðar konur finna fyrir er að þær geta ekki frjálsar farið um og frjálsar lifað lífinu, frjálsar tekið ákvarðanir um sitt líf. Það hefur síðan áhrif til að veikja stöðu þeirra.

NPA-aðferðin gefur fólki hins vegar tækifæri til að vera þátttakendur í samfélaginu á sömu forsendum og við hin. Þess vegna tel ég að það geti hjálpað fötluðum konum og fötluðum körlum að lifa lífi með reisn á sínum eigin forsendum frekar en forsendum einhvers kerfis sem úthlutar þeim hvenær þau geti gert þetta og hitt. Þetta er mannúðlegri nálgun.

Það sem ég vildi nefna við hv. þingmann er að það sem ég óttast er að við fórum af stað með tilraunaverkefni á þessu sviði en virðumst ekkert vera að nálgast þann stað að geta gert þetta að raunverulegum valkosti fyrir fólk. Það kom fram í máli ráðherrans í fyrirspurnatíma nýverið. Ég spyr þess vegna hv. þingmann hvað hann telji að við hér inni getum gert. Eigum við ekki að setjast niður (Forseti hringir.) og reyna að gera einhverja áætlun um fjármögnun á þessu verkefni til lengri tíma sem við getum öll sammælst um þverpólitískt?