145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er algjörlega rétt hjá þér. Hefur verið reiknað út hverju við erum að sóa af peningum? Ég held að það hafi ekki verið reiknað út hverju hefur verið sóað af peningum þar sem til dæmis aðstandendur fólks hafa þurft að sleppa vinnu og þar af leiðandi ekki verið úti í samfélaginu til að vinna og borga skatta. Það er alveg „valid“ punktur, það er bara svoleiðis, alveg ótrúlega margir aðstandendur, eins og ég kom inn á áðan í ræðu minni, hafa þurft að fórna vinnu, starfsferli og eðlilegu lífi til að sinna börnum sínum.

Það hefur líka komið í ljós að foreldrar þeirra sem njóta NPA eru komnir aftur út á vinnumarkaðinn og farnir að lifa eðlilegu lífi. Við erum ekki bara að tala um lífsgæði og lífskjör þeirra sem þurfa að nota aðstoðina heldur líka foreldra, forráðamenn og aðstandendur (Gripið fram í: Nákvæmlega.) sem hafa lagt gríðarlega á sig til að börnin þeirra þurfi ekki að fara inn á stofnanir. Það vill enginn. Eins og ég sagði áðan hefur það komið fram að sumir þurfa þess. Það er bara þess eðlis, fötlun er svo víðtæk, en þessi þjónusta hefur gert það að verkum að þarna fáum við fólk út á vinnumarkað. Það var meðal annars reiknað út hverju það mundi gjörbreyta ef við settum meiri peninga í atvinnutúlkun, það mundu til dæmis 20–30 heyrnarlausir fara af bótakerfinu og í atvinnu ef þeir fengju atvinnutúlkun. Samkvæmt því sem ég veit að hefur verið reiknað út kostar það ríkið 30 milljónir á ári að gera það en mundi skila til baka kannski 50–60 í formi skatta, gjalda og þess sem fólk gefur af sér.

Þetta er mjög víðtækt, en snýst um að fólk fái að taka þátt í lífinu, lifa sjálfstæðu lífi og með reisn eins og allir aðrir vilja gera.