145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir ræðuna og fyrir að gera þetta atriði sérstaklega að umfjöllunarefni hér þegar við erum að ræða fjárlögin. Ég verð hreinlega að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því um helgina að þegar kom að þessum samningi milli ríkis og sveitarfélaga, sem ég fagnaði mjög, væri verið að taka NPA út fyrir sviga og það væri ekki partur af þessu samkomulagi. Það urðu mér mjög mikil vonbrigði að uppgötva að það væri alveg tekið út fyrir sviga.

Ég er svo hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þessi samningur gerbreytir lífi og öllum aðstæðum þess fólks sem fær svona samning. Hann gerir því kleift að vera virkir þjóðfélagsþegnar til jafns við aðra með því að hafa þessa þjónustu og svo margt annað sem bætist við, eins og að fólk geti verið virkt á vinnumarkaði. Auðvitað græðum við á því sem samfélag, ekki bara vegna þess að fólk er að greiða skatta heldur einmitt vegna þess að við græðum á svo mörgum stöðum þegar fólk er virkt í samfélaginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að nú á samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks að klára innleiðingu NPA fyrir árslok 2016 og fjármögnun samtímis. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þetta geti dregist enn frekar ef stjórnvöld sjá ekki ástæðu til að ráðstafa núna sérstaklega peningum í þetta? Hvernig eigum við annars að geta haldið áfram með vinnuna og gert þetta að einu meginformi þjónustu við fatlað fólk?