145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Jú, ég hef áhyggjur af því. Það átti að vera búið að innleiða þetta sem lögboðna þjónustu. Síðan ákvað núverandi hæstv. félagsmálaráðherra að framlengja tilraunaverkefnið. Það er greinilega eingöngu vegna þess að það vantar einhverja peninga. Þetta kostar peninga eins og svo margt annað. Maður hefur það svona á tilfinningunni eftir að hafa setið fundi með verkefnisstjórn að þetta sé eins og eitt af óhreinu börnunum hennar Evu. Það vill þetta enginn. Þetta er allt of dýrt, þetta kostar of mikið. Hvað kostar að hafa þetta fólk inni á stofnunum? Það kostar ekkert minni pening og er miklu óhagstæðara fyrir samfélagið allt í heild sinni. Það er bara þannig.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það verði að fara að gera ráð fyrir peningum í þetta verkefni. Þá er aftur komið að forgangsröðuninni. Hvernig viljum við ráðstafa peningunum í þessu samfélagi? Það voru deilur á milli sveitarfélaga og ríkisins um það. Ríkið setti inn 20% á móti 80% hjá sveitarfélögunum. Nú er búið að hækka það samkvæmt nýjasta samkomulaginu upp í 25% en þá mega ekki fleiri en 55 nota þjónustuna. Svo á bara að velja hverjir fá og hverjir ekki og enginn veit neitt. Einn stór partur af þessu sem ég er mjög ósáttur við er óvissan. Það veit hreinlega enginn neitt. Við vitum það alveg sjálf hvernig er að lifa í óvissu. Það er ekki á það bætandi fyrir fólk sem hefur barist árum saman fyrir þessu og eygir eitthvert ljós við enda ganganna að það sé alltaf verið að slá það til baka. Það fær ekki svör, það veit ekki hvað gerist á morgun, hvað gerist í næstu viku. Þetta er eilíf togstreita. Þetta hefur áhrif, fyrir utan hvað það hefur ofsalega slæm andleg áhrif á fólk að þurfa að lifa við óvissu.

Ég vil, eins og kom fram hjá okkur í andsvari (Forseti hringir.) áðan, fara að forgangsraða og ná þverpólitískri sátt um þetta.