145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og störf hennar að málinu í fjárlaganefnd. Ég vildi inna hana eftir því hvort hún teldi ekki nauðsynlegt að frumvarpið gengi aftur til nefndar áður en 2. umr. lýkur vegna þeirra miklu breytinga og lagfæringa sem tilkynnt hefur verið að gera þurfi á frumvarpinu.

Ég sit ekki í fjárlaganefnd nú en gerði það á mínu fyrsta kjörtímabili 2003–2007. Þá var það og hafði lengi verið regla að frumvarpið kæmi því sem næst fullbúið til 2. umr., þeirrar sem við erum núna í, sem á að vera hin efnislega umræða um málið og sem atkvæðagreiðsla um einstakar greinar kemur í kjölfarið á. Telur þingmaðurinn ekki ljóst að það séu svo miklar breytingar sem þurfi að gera á frumvarpinu áður en það geti orðið að lögum að það sé einfaldlega réttast að það gangi aftur til nefndarinnar, að þær breytingar séu gerðar á málinu og síðan komi það aftur inn til 2. umr. í framhaldinu? Meðan við erum að fara yfir þetta atriði spyr ég hvort henni sé kunnugt um einhver dæmi um jafn miklar skekkjur í fjárlagafrumvarpi nema bara rétt eftir hrunið þegar sem mest gekk á í neyðarástandinu. Ég tala nú ekki um þessa prentvillu eða hvað það átti að vera upp á 1,2 milljarða. Þekkir hún dæmi um slík frávik í frumvarpi sem komið er til lokaafgreiðslu á Alþingi?