145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þetta andsvar. Ég hefði viljað sjá frumvarpið koma til fjárlaganefndar á milli umræðna eins og hv. þingmaður bendir á og við ræddum hér aðeins um helgina. Það eru engir smáaurar sem hér er um að ræða, ekki bara er varða 1,2 milljarðana sem gleymdust vegna kennarasamninganna. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að það skyldi gerast, þetta eru engar smáræðisupphæðir, en svo er líka undir samningurinn við sveitarfélögin. Þá hefði manni fundist vitrænna til að styrkja umræðuna og gera hana efnislegri að vera með einhverjar niðurstöðutölur. Við vitum ekki endanlega hvaða áhrif þetta hefur á jöfnuð ríkisfjármálanna þannig að það eitt og sér skiptir auðvitað líka máli.

Mér hefur fundist það orðin venja fremur en undantekning frá því að þessi ríkisstjórn tók við að fjárlagafrumvarpið kemur hálfkarað inn í þingið. Gríðarlegar breytingar eru gerðar á milli umræðna og það er búið að vera þannig eiginlega frá því að þessi ríkisstjórn tók við sem er svolítið sérkennilegt. Eins og við munum var því frestað að hefja þing fyrst þegar ríkisstjórnin tók við og fjárlagafrumvarpið var lagt seinna fram en þrátt fyrir þann lengda tíma virðist ríkisstjórninni ekki takast að koma þessu fram almennilegu, sæmilega búnu eins og hv. þingmaður nefndi þannig að í því séu verðlagsbreytingar eða uppfærslur sem eiga sér stað í lok ársins þegar ákveðnar tölur eða forsendur liggja fyrir sem ekki lágu fyrr. Hér er komið með það þrátt fyrir að niðurstöður lægju fyrir þegar frumvarpið var útbúið, (Forseti hringir.) m.a. vegna kjarasamninga.