145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Mér þótti athyglisvert í þeim svörum sem hæstv. fjármálaráðherra veitti hér í morgun og þingmaðurinn vitnaði meðal annars til í ræðu sinni að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er augljóslega þeirrar skoðunar að kannski séu hvað mikilvægustu þættir frumvarpsins enn alveg óræddir við 2. umr. Kannski er brýnt að við tökum við þeim ábendingum og reynum að snerta þá þætti aðeins í umræðunni í dag. Þar vísaði fjármálaráðherra sérstaklega til þess hvernig útgjaldaþróunin væri samkvæmt frumvarpinu eins og það lægi núna fyrir sem og þess hvernig gert hefði verið ráð fyrir því að útgjaldaþróunin yrði í ríkisfjármálaáætluninni sem sami fjármálaráðherra og sama ríkisstjórn lagði fram síðastliðið sumar. Það var helst á honum að skilja að það væru talsverð frávik frá þeirri áætlun í frumvarpinu eins og það stæði nú og ég inni þingmanninn eftir því hvað hún þekki til þess.

Sömuleiðis skýrði fjármálaráðherra ástæður þess að aldraðir og öryrkjar ættu ekki að fá kjarabætur afturvirkt eins og allir aðrir í landinu með tilvísun til þess að of margir ungir karlmenn yrðu óvinnufærir og færu á örorku. Áttar hv. þingmaður sig á samhengi þessara hluta hjá hæstv. fjármálaráðherra? Hvað hefur það hve margir ungir karlmenn fara út á vinnumarkaðinn með það að gera hvernig staðið er að hækkun eftirlauna í landinu og og eins hitt hvort það að öryrkjar fái sínar kjaraleiðréttingar frá sama tíma og aðrir muni hafa einhver áhrif (Forseti hringir.) á fjölgun öryrkja eða ekki fjölgun öryrkja?