145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er akkúrat það sem hæstv. ráðherra kom hér inn á, útgjaldaþróunin sem hann heldur fram að hafi ekki verið nægilega rædd hér. Ég er ekki alveg sammála honum vegna þess að við höfum talað töluvert um ríkisfjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Við höfum að minnsta kosti talað töluvert um, og ekki bara við vinstri græn, fleiri hafa gert það, ritið hans sem ég vísaði í áðan, Stefna og horfur í ríkisfjármálum. Þar kemur fram að markvisst er unnið að minnkun á samneyslu þegar fullyrt er á sama tíma að verið sé er að auka hér útgjöld til heilbrigðismála í heimsmetum, eins og flest annað sem ríkisstjórnin tekur sér fyrir hendur, og þá er auðvitað áhugavert að sjá að fjárlagafrumvarpið er ekkert endilega í takti við ríkisfjármálaáætlunina hvað varðar meðal annars útgjaldaþróunina.

Hvað varðar kjarabæturnar afturvirkt og þetta með karlana er líka mjög áhugavert að setja þetta í samhengi. Ég skil ekki alveg það útspil hæstv. ráðherra að leyfa sér að láta að því liggja að ungir menn velji að festast á bótum en ástæðan sé ekki meðal annars sú að ungt fólk, eða fullorðið fólk eins og ég tók dæmi um í ræðu minni, svo sem konur á miðjum aldri sem fá ekki vinnu, lendi á einhvers konar bótum.

Við erum líka að tala um atvinnulíf sem er ekki endilega tilbúið að sinna þessu fólki, það vill ekki taka við. Maður sem er búinn að vera atvinnulaus lengi fer í viðtal eftir viðtal eða fær ekki viðtal, sendir umsókn sí og æ en fær jafnvel ekki einu sinni áheyrn. Þetta snýst um miklu meira en það að fólk velji sér það að festast á einhverjum bótum. Þetta snýst líka um að við bjóðum upp á velferðarkerfi og menntakerfi (Forseti hringir.) sem tekur á móti þessu fólki.