145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar og ég verð að segja að ég hélt að mér hefði misheyrst þegar ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra tala á þennan hátt.

En það er annað sem hæstv. fjármálaráðherra gerir mjög gjarnan og það er að bera saman fjárlögin í dag og fjárlögin 2009 þegar þáverandi ríkisstjórn fékk í fangið þriðja stærsta bankahrun heimssögunnar. Mig langaði að spyrja hv. þingmann að því hvers konar reiknikúnstir eru þar á ferð eða kannski má kalla það barbabrellur þegar ráðherra kemur með þá útúrsnúninga, oft í kringum það þegar verið er að gagnrýna hvernig er forgangsraðað, t.d. í þessum fjárlögum.

Ég hef verið að fylgjast með umræðunni og breytingum og öllu og mín tilfinning er sú að hæstv. fjármálaráðherra hafi hreinlega ekki yfirsýn yfir fjárlögin. Það hafa verið gerðar svo miklar breytingar núna á mjög stuttum tíma, lögð fram gögn þar sem gleymast risastórir fjárlagaliðir og ég hef miklar áhyggjur af þessu fjárlagafrumvarpi eins og það er og ekki voru virtar þær dagsetningar þar sem það átti að koma inn. Maður hefur á tilfinningunni að það sé engin almennileg yfirsýn yfir fjárlögin. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þetta sé venjubundið eða hvort þetta valdi henni áhyggjum og hvort það eigi hreinlega að vera liðið að svona vinnubrögð séu ástunduð hér árið 2015.