145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samfélag okkar á að vera fyrir alla og einmitt þessi regla um aðgang að framhaldsskóla, að maður megi ekki vera yfir 25 ára aldri, eru skýr skilaboð til þeirra sem annaðhvort hófu ekki framhaldsskólanám eftir grunnskóla eða hafa af einhverjum ástæðum hætt tímabundið í námi. Þetta eru skýr skilaboð til þessara hópa að þeir séu ekki jafn verðugir samfélagsþegnar og þeir sem klára framhaldsskólapróf fyrir 25 ára aldur.

Þessi ríkisstjórn tók 80 milljarða til að lækka húsnæðisskuldir. Við eigum reyndar eftir að fá almennilegar tölulegar upplýsingar en það er vitað að mikið af þeim fjármunum fór til fólks sem er í ágætri stöðu, jafnvel fólks sem var búið að greiða upp lánin sín og fær þá núna aukapersónuafslátt. Þannig notaði ríkisstjórnin 80 milljarða í staðinn fyrir að byggja upp nýjan Landspítala, byggja hjúkrunarheimili, styðja við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og auka stuðningskerfi í húsnæðismálum til að auka framboð á húsnæði. Þannig var forgangsröðunin. 80 milljarðar, það eru gríðarlegir fjármunir. Ég veit að ég og hv. þingmaður og okkar flokkar vildu fara í frekari skuldalækkun hjá þeim heimilum sem voru í alvarlegum vanda, heimilum sem fengu jafnvel núna í þessari aðgerð ekki neina sérstaka úrlausn sinna mála. Við vildum nota megnið af þessum milljörðum í að styrkja innviði samfélags okkar í heilbrigðis-, mennta- og húsnæðismálum.