145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég þreytist aldrei á að lesa upp úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að ríkisstjórnin muni, með leyfi forseta, „leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslenskar stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“ Síðar segir: „Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“ Og: „Samfélag er samvinnuverkefni.“ Og svo segir hér enn síðar: „Unnið verður að því að tryggja jafnrétti allra landsmanna.“

Maður spyr sig: Er jafnrétti í því fólgið að halda þeim sem lægstar hafa tekjurnar úti í kuldanum og segja að verðbólgan fari upp á við vegna þess að kjarasamningar séu svona eða hinsegin og aldrei virðist vera tími, þegar betur árar eða ekki, til að fara í það verkefni að hækka lægstu laun og lægstu bætur?

Mér finnst, af því að við vorum að tala um menntamál og geðræn vandamál, að það sé kannski hluti af menntakerfinu að hafa þennan sveigjanleika, fólk sem á við geðræn vandamál að etja þarf að hafa sveigjanleika í kerfinu sem hæstv. menntamálaráðherra er að loka á í gegnum fjárlög af því að hann gerir það ekki í gegnum heilbrigða umræðu með fagfólki í þinginu.

Svo er það þetta viðhorf sem birtist í svörum hæstv. ráðherra. Það er eins og það eigi að neyða gamalmenni og öryrkja út á vinnumarkaðinn. Hvernig á maður að skilja þetta öðruvísi?

Í restina langar mig að spyrja í ljósi umræðunnar um 80 milljarðana hvort hv. þingmaður telji að það sé skynsamlegt og samræmist góðri peningastefnu að fara í skattalækkanir með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn gerir núna í fjárlagafrumvarpinu og boðar í ríkisfjármálaáætlun.