145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Nei, þegar uppsveifla er í hagkerfinu er ekki tími til að fara í skattalækkanir. Við þurftum að fara í skattahækkanir í niðursveiflu af því að tekjuöflunarmekanisminn í ríkissjóði hafði verið eyðilagður. Það gerðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í aðdraganda í aðdraganda hrunsins í mesta góðæri Íslandssögunnar þó að það væri nú falskt góðæri. Þá voru skattar lækkaðir á blússandi þenslutímum. Nú á að hefja sama leikinn á ný. Svo er kvartað yfir því að launafólk sé að valda verðbólgu með kjarakröfum sínum á meðan ríkissjóður tekur enga ábyrgð á verðbólgunni og fer í þessar skattalækkanir.

Ríkisstjórnin á auðvitað að segja: Nú ætlum við að leggja til aukna fjármuni í húsnæðismál til að auka framboð á húsnæði, við ætlum að efla heilbrigðiskerfið og draga úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Við ætlum að efla menntakerfið og tryggja að allir hafi aðgang að menntun óháð efnahag en reka ekki fólk út í einkavædda hluta kerfisins sem eru dýrari. Svo hefði verið hægt að segja: Við ætlum líka að efla barnabæturnar til að koma til móts við barnafjölskyldur. Þá hefði verið hægt að segja: Nú þurfa kjarakröfurnar að ríma við getu okkar. En launafólk býst ekki við neinu af hálfu ríkisins, sérstaklega ekki þeir sem eru í lægri tekjuskölunum sem fá ekki neina skattalækkun sem heitið getur en taka á sig auknar álögur í opinberri þjónustu, borga hana dýrara verði af því að ríkisstjórnin er á þeirri leið að grafa undan þeim kerfum og því samfélagi sem við eigum saman.