145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spyr þá er ég mjög hamingjusamur, enda er þetta fallegur dagur. Ég styð þá tillögu hæstv. forseta að hér verði kvöldfundur og að honum verði fram haldið inn í nóttina ef þörf er á. Það eru gríðarlega margir á mælendaskrá og stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi hafa fundið ríka þörf til að tjá sig um þetta mál, raunar svo ríka að mér skilst að um þetta mál verði sett Íslandsmet í umræðulengd milli fjögur og sex í dag. Meðan svo er og ekki er hægt að fá fram niðurstöðu um hvenær umræðu getur lokið af hálfu stjórnarandstöðunnar á forseti engan annan kost en að vera hér með kvöld- og næturfundi. Ég styð því tillögu hæstv. forseta hvort sem um það verða greidd atkvæði eða samkomulag er um það hér í salnum. Forseti er settur í erfiða stöðu í þessu máli þar sem ekki er hægt að setja niður af hálfu stjórnarandstöðunnar hvenær mögulegt er að ljúka þessu máli og halda atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) um fjárlög íslenska ríkisins eftir 2. umr.