145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna mjög tillögunni um að hér skuli vera lengdur þingfundur. Vonandi stendur hann sem lengst. Ég er öldungis ósammála hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um að þær umræður sem hér hafa farið fram hafi ekki verið gagnlegar. Þær hafa verið mjög gagnlegar og margt nýtt komið fram.

Aðalerindi mitt í þennan stól í dag var þó að biðja hv. þm. Össur Skarphéðinsson velvirðingar á því að ég hef mjög kallað eftir því að hann væri hér með okkur kvöld og nætur þegar hann lá krankur heima. Það var mér ókunnugt um en auðvitað hefði ég átt að vita að jafn gamalreyndur stríðsmaður og Össur Skarphéðinsson hefði ærna ástæðu til að vera fjarri vettvangi þegar mikið gengur á. Ég gleðst yfir því að sjá hv. þingmann hér í salnum og ég vona að hann hafi heilsu til að fylgja okkur inn í nóttina því að það verður okkur öllum til gagns og gleði.

Að því sögðu vona ég að við höfum hér langan og árangursríkan fund. Mörg mál bíða og við skulum bara taka á því eins og þar stendur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)