145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér er eiginlega tregt tungu að hræra eftir þá fallegu ástarjátningu sem ég fékk hér af munni eins hv. þingmanns Framsóknarflokksins. Illt er að leggja ást við þann sem enga kann á móti. Ég vil bara lýsa því yfir að ég elska hann jafn heitt og hann mig. [Hlátur í þingsal.] Þetta er í fyrsta skipti sem nokkur þingmaður Framsóknarflokksins hefur lýst því yfir, a.m.k. úr þessum ræðustóli, að honum þyki næturnar leiðinlegar nema ég sé þar samferða einhvers staðar. Ég vil að það komi algjörlega skýrt fram að ef það getur gert honum lífið bærilegra er ég reiðubúinn að vera hér daga sem nætur eftir því sem þingið skipar og mun ekki víkja honum frá hlið.

Að öðru leyti lýsi ég því yfir að ég mun styðja tillögu forseta þingsins á eftir vegna þess að ég tel að með henni séum við að gangast við því að við munum vera hér til kl. 12 en ekki mínútu lengur.