145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vegna orða hæstv. forsætisráðherra áðan um Íslandsmet í umræðu um fjárlög, sem er eitthvað annað en frá 2012 þegar hann var í stjórnarandstöðu, verð ég að segja að mér er eiginlega nokk sama um það. Ég held að hin langa umræða um fjárlög núna taki mið af því að fjárlaganefnd, og þá sérstaklega meiri hluti fjárlaganefndar, hefur í raun og veru slugsað við þessa fjárlagagerð. Hún hefur umræðuna tíu dögum á eftir starfsáætlun og þar að auki eru að dúkka hér upp alls konar atriði sem hefðu átt að vera í tillögunum, eins og launahækkun til kennara, 1,5 milljarðar. Svo er ríkisstjórnin áfram að gera einhverja samninga sem á eftir að taka við. Síðan segir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um lífeyrisskuldbindingar: Þar með er ekki öll sagan sögð þar sem ekki hefur verið lagt mat á lífeyrisskuldbindingar o.s.frv. Þar er fjallað um að það yrði langumfangsmesta (Forseti hringir.) gjaldfærsla í ríkisreikningi þegar þar að kemur. Um það er ekkert fjallað og ekki heldur um að forsætisráðherra (Forseti hringir.) ætlar ekki að uppfylla launahækkanir til aldraðra og öryrkja 1. maí (Forseti hringir.) þegar allir aðrir eiga að fá 5,9%. Ekki er heldur gert ráð fyrir því í frumvarpinu. (Gripið fram í: Hvers konar rugl er þetta í þér?) (Gripið fram í.)