145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þingflokksformaður Vinstri grænna var að biðja um einhvers konar fund þar sem stjórnarliðar áttu að tilkynna stjórnarandstöðunni hvað við ætlum að bjóða henni. (BjG: Hann var boðaður í gær.) Ég get svarað þeirri spurningu strax, virðulegur forseti: Við ætlum ekki að bjóða neitt. Ekkert. Stjórnarandstaðan getur talað hér þangað til hún hefur fengið nóg, þangað til hún hefur sett nógu rækilegt Íslandsmet í málþófi. Hins vegar mun fjárlaganefnd auðvitað meta þær ábendingar sem fram hafa komið og það sem skoða þarf fyrir 3. umr. fjárlaga. Þar geta hugsanlega komið til einhverjar breytingar, en ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar ætla ekki að mæta fulltrúum stjórnarandstöðu til að bjóða þeim eitthvað fyrir að standa í málþófi. Öðru nær, virðulegur forseti, og það er áhugavert að sjá að hér leggjast allir á eitt í stjórnarandstöðu, bæði gömlu afreksflokkarnir í málþófi, sósíalistaflokkarnir tveir, en líka nýju flokkarnir sem ætluðu að vera allt öðruvísi og þóttust hafnir yfir hluti eins og málþóf. Þeir slá ekki slöku (Forseti hringir.) við í málþófinu og nýja Íslandsmetinu. [Kliður í þingsal.]