145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Umræðan við 2. umr. fjárlaga að þessu sinni er orðin löng vegna þess hversu mörg erfið álitamál eru uppi og hversu illa málið er undirbúið af hálfu stjórnarmeirihlutans. Um 300 breytingartillögur meiri hlutans sem lúta að mörgum stórum þáttum líta hér dagsins ljós. Við sjáum líka að stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að verða við óskum yfirstjórnar Landspítalans um fullnægjandi rekstrarfé og ekki að verða við eðlilegri kröfu lífeyrisþega um kjarabætur til samræmis við almennt launafólk. Þvert á móti hefur þessi umræða sýnt eindreginn vilja sem tjáður var hér af hæstv. fjármálaráðherra í dag til að hlunnfara lífeyrisþega. Við erum síðan á sama tíma, af því að umræðan teygist á langinn, að sjá að samstaðan í stjórnarmeirihlutanum er að bila. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson er búinn að lýsa því yfir að hann fyrirverði sig fyrir atkvæðið sem hann greiddi við fjáraukalagaafgreiðsluna. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að umræðan geti haldið áfram til að draga fram togstreituna og ósamstöðuna (Forseti hringir.) í stjórnarmeirihlutanum [Kliður í þingsal.] og reyna að ýta þessum meiri hluta til betri verka.