145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta orðið alveg fáránlegt og þrúgandi andrúmsloft ef maður má orðið varla fara í pontuna í stórum málum og flytja ræðu án þess að vera sakaður um málþóf. Ég hef flutt eina ræðu um fjárlögin og tók mér svolítinn tíma í að undirbúa hana. Hún átti að lýsa því hvernig ég lít á þessi mál. Við í Bjartri framtíð höfum nálgast umræðuna þannig að við lítum á það sem skyldu okkar að fara í pontu hvert og eitt um þau mál sem varða áhugasvið okkar og þá málaflokka sem við dekkum í nefndum og segja hvernig við teljum að fjárlögin eigi að vera. Það höfum við gert. Megum við ekki gera þetta öðruvísi en að vera sökuð um að vera að tefja mál eða vera í málþófi? Ég vísa því algjörlega á bug að við séum þátttakendur í slíku.