145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað hægt að hafa skilning á því að forsætisráðherra sé að tapa sér, en það verður þó að biðja hæstv. forsætisráðherra, embættis hans vegna, að missa sig ekki svona í ræðustól Alþingis. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt þegar fjármálaráðherra hans hefur lýst því yfir fyrir tveim klukkustundum eða svo úr þessum sama stól að það eigi algjörlega eftir að ræða útgjaldaþróunina í fjárlagafrumvarpinu og hvernig hún standist þá langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin sjálf lagði fram. Ég held að það gefi okkur fullt tilefni til að vera hér að enn um sinn. Það er engin ástæða til að fetta sérstaklega fingur út í það, enda eru hér þingmenn á mælendaskrá sem eru að fara í sína fyrstu ræðu um þetta mikilvæga frumvarp, fjárlög. Það er ástæðulaust fyrir forsætisráðherra að missa sig svona yfir þá þingmenn sem leyfa (Gripið fram í.) sér að fjalla um málefnið.