145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Enn tala hæstv. aðilar um met í einhverju sem þeir kalla málþóf. Ég vil taka fram að ég hef ekki talað í þessari umræðu enn sem komið er af því að ég fékk ekki að koma í þingsalinn í síðustu viku. Menn fundu nefnilega á laugardegi einhverja neðanmálsgrein um að ef þingmenn kölluðu inn varamenn skyldu þeir vera í burtu í viku en ekki í fimm daga, eins og við héldum flest að reglan væri. Það var eins og einn ágætur þingmaður orðaði það: Það er svo gott þegar menn fara að grípa til neðanmálsgreina til að liðka fyrir samstarfinu. Og það er einmitt það sem er að gerast núna. Ég hefði talað hér á laugardaginn ef mér hefði verið hleypt í salinn, en það var ekki vegna þess að menn voru búnir að finna það út að þá færi ég kannski að tala í 40 mínútur. Þá fáið þið bara að hlusta á mig í 40 mínútur í staðinn og kannski aftur í 20. (Gripið fram í.)