145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að halda tvær ræður um þetta mál, að mínu mati efnismiklar, og það er fleira sem þarf að ræða. Því miður gat hv. þm. Frosti Sigurjónsson ekki verið á staðnum þegar ég flutti seinni ræðu mína, en hún varðaði að miklu leyti hans ágætu ræðu sem ég hvet alla til þess að hlusta á sem ekki hlýddu á hana þegar hún var flutt.

Mig langar að upplýsa hæstv. forsætisráðherra um það hvernig málum er stundum háttað við þinglok, þá fólk hefur nóg að segja, sér í lagi í mjög stórum og viðamiklum málum eins og fjárlögum íslenska ríkisins, sér í lagi þegar mikið er af breytingartillögum, sér í lagi þegar breytingartillögur koma meðfram þingfundi. Í því felst engin gagnrýni á fyrirkomulagið, ég er bara að benda á að langar umræður eru eðlilegar um sum mál, sér í lagi þegar það eru fjórir stjórnarandstöðuflokkar sem hafa margir misjafna sýn á hvernig hlutirnir eiga að vera.

Það sem gerist síðan er að þegar meiri hlutinn fer að kvarta og sækjast eftir því að menn fari að skerða ræðutíma sinn eru þeir að biðja minni hlutann um að hefta málfrelsi sitt. Það er þess vegna sem samningar eru gerðir. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að verðlauna fyrir málþóf, eins og það er kallað, það er bara hluti af því að ef meiri hlutinn vill stytta umræðuna þarf hann að bjóða eitthvað til baka ef menn eiga ekki að nýta málfrelsi sitt til fulls. (BjG: Samvinna og samstarf.)