145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég talaði í þessari umræðu síðastliðið föstudagskvöld og flutti ræðu og nýtti ekki allan ræðutímann sem mér stóð til boða. Ég held að ég hafi talað í tæpar 30 mínútur en gat flutt ræðu í 40 mínútur. Það er eina ræðan sem ég hef flutt í þessari umræðu, ég sé ekki fyrir mér að ég þurfi í sjálfu sér að bæta miklu við hana. Ég held að það sé ósköp eðlilegt að allir þingmenn hafi að minnsta kosti eitthvað um fjárlög ríkisins að segja. Það er ekki ásættanlegt að sitja undir því í þessum sal að stjórnarliðar með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar komi hingað upp og haldi því fram upp í opið geðið á manni og upp í opið geðið á þjóðinni að þar sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Það er fullkomlega óásættanlegt, það er óvandað, það er ómálefnalegt, það er ekki einu sinni lýðræðislegt (Gripið fram í.) að halda því fram. (Forseti hringir.) Ég vil biðja hæstv. utanríkisráðherra að róa sig á meðan ég útskýri mál mitt hérna. (Gripið fram í.) Ég bið hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) um að hafa sig hægan (Forseti hringir.) og leyfa öðrum hér að lýsa skoðun sinni (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er ekkert annað en rakinn dónaskapur. [Háreysti í þingsal.]