145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að hafna því að ég sé hér að stunda einhvers konar málþóf. Þetta er mín fyrsta ræða um þetta fjárlagafrumvarp og mér finnst mjög mikilvægt að fram komi nokkur meginatriði sem við píratar höfum lagt áherslu á en jafnframt finnst mér mjög mikilvægt að við séum sanngjörn. Það sem ég upplifi sem eina mestu ósanngirnina þegar við fjöllum um þetta fjárlagafrumvarp er þegar núverandi meiri hluti ákveður á einhvern ótrúlega aumkunarverðan hátt að bera fjárlög 2015 saman við fjárlög 2009. Ég vil segja, ef það hefur farið fram hjá einhverjum Íslendingi eða þingmanni því að þeir séu margir nýir núna, að árið 2009 var þáverandi ríkisstjórn með ótrúlega mikla erfiðleika í fanginu. Þau þurftu að glíma við fjármálahrun sem kom til út af núverandi ríkisstjórnarflokkum. Það er bara þannig. Ef maður les rannsóknarskýrslu Alþingis sér maður alveg ljóslega hverjir bera meginábyrgð á fjármálahruninu og það er alveg ótrúlega aumt að bera þann niðurskurð, sem ég veit að var þungbær þegar ríkisstjórnin sat með í fanginu þriðja stærsta fjármálahrun heimssögunnar og þurfti að skera niður, saman við það hversu nánasarlega þessi ríkisstjórn kemur fram við til dæmis öryrkja og eldri borgara. Þá er ég fyrst og fremst að tala um eldri borgara sem eiga ekki rétt á hefðbundnum lífeyrissjóðsgreiðslum eða þær eru skornar svo við nögl af því að þeir neyðast til að fá greitt frá Tryggingastofnun.

Ég var ekki hluti af síðustu ríkisstjórn en mér finnst svo ótrúlega viðurstyggilegur, hallærislegur, kjánalegur og aumur málflutningur að geta ekki horfst í augu við þann veruleika og þá stefnu sem maður sjálfur er með, eins og núverandi ríkisstjórn sem gerir ekki neitt að ráði fyrir þá sem lofað var að tryggja að gætu lifað við einhvers konar reisn.

Það rekur mig að öðru máli sem er það fyrirkomulag sem við höfum á rekstri Tryggingastofnunar sem er með þannig kerfi að ekki nokkur maður skilur það, ekki einu sinni fólk sem hefur starfað þar lengi. Þótt velviljað fólk, hvort sem er núverandi ríkisstjórn eða aðrar ríkisstjórnir, hafi lagt sig fram við að laga kjör öryrkja og eldri borgara koma einhverjar skerðingar á hlið sem enginn sá fyrir og fólk situr jafnvel uppi með enn verri kjör þrátt fyrir tilraunir til að gera betur. Það rekur mig að þeirri niðurstöðu að það kerfi sé hreinlega úr sér gengið, ónýtt og allt of flókið. Við þurfum virkilega að leggjast yfir það eins og ítrekað hefur verið gert en þá alltaf með það fyrir augum að endurskapa núverandi kerfi úr sama efnivið í staðinn fyrir að horfa ferskt á hvernig við getum lagfært þessa hluti til frambúðar.

Ég hef þekkt marga öryrkja og eins og allir hér á mínum aldri hef ég átt afa og ömmu sem hafa fengið ellilífeyri. Sumir þingmenn sem hafa sagt að aldrei hafi öryrkjar og ellilífeyrisþegar fengið eins vel úr okkar sameiginlegu sjóðum ættu að prófa að lifa af þeim launum sem fólk fær frá Tryggingastofnun. Það er ekkert grín. Ég fæ daglega bréf, eins og alveg örugglega mjög margir þingmenn, frá fólki sem er í raunum, á ekki fyrir lyfjunum sínum og á ekki fyrir mat út mánuðinn. Þessi mánuður sem á að vera mánuður þar sem við deilum mat og gjöfum hvert með öðru er fólki afar þungbær. Þess vegna verð ég að spyrja mig: Af hverju erum við að skilgreina fólk í prósentum? Hvers konar hugmyndafræði er það? Hvers konar hugmyndafræði er það að ef einhver sem er 25% eða 100% öryrki fær aðeins meira starfsþrek eða fær hlutastarf er byrjað að skerða frá viðkomandi aðila grimmt þegar komið er upp í eitthvert ótrúlega lágt lágmark? Þetta er ekki einkennandi bara fyrir Ísland. Ástæðan fyrir því að það er upprisa fasista, eins konar zombíar, um alla Evrópu sem eru að ná meiri og meiri fótfestu, fólks sem elur á ótta, fólks sem nær sér í stuðninginn vegna ótta almennings um afkomu sína, er sú að við sinnum ekki nægilega vel viðkvæmustu hópunum í samfélagi okkar. Það fólk sem á rétt á því samkvæmt þeirri samfélagsgerð sem við erum öll sammála um að við viljum búa í fellur viðstöðulaust í gegnum möskvana. Hvernig stendur á því að við búum í samfélagi þar sem það fyrsta sem manneskja sem veikist til dæmis af krabbameini þarf að gera er að eyða heilum mánuði í að fylla út einhverja pappíra og búa við óvissu um hvort viðkomandi sjúklingur fái peninga fyrir mat í næsta mánuði? Ég veit að það er ekki það samfélag sem langflestir Íslendingar vilja búa í.

Ef við viljum koma í veg fyrir öfgar í samfélagi okkar, þær viðurstyggilegu uppvakningaöfgar sem eru að koma fram um alla Evrópu, m.a. hér, verðum við að tryggja að þeir sem þurfa hvað mest á stuðningi okkar að halda úr okkar sameiginlegu sjóðum, fólk sem hefur jafnvel greitt vel í þá sjóði þegar það hafði heilsu, verðum við að tryggja að það fólk fái að búa með reisn og virðingu í samfélagi okkar í staðinn fyrir að raðirnar lengist stöðugt hjá mæðrastyrksnefnd og víðar til að fá matarúthlutanir í desember.

Forseti. Ég var ein af þeim einstæðu mæðrum sem þurftu að standa í biðröð hjá mæðrastyrksnefnd á árum áður. Það var niðurlægjandi, það voru erfið og þung skref og það er ekki nokkuð sem ég óska neinum. Ég vil ekki að við búum í þannig samfélagi þar sem það verður normið að okkar samfélag, við Íslendingar, ein ríkasta þjóð í heimi, geti ekki tryggt að fólkið okkar fái almennilega heilbrigðisþjónustu, að það þurfi í raun að búa við stöðugan ótta um afkomu sína. Allir þeir sem hafa búið við ótta um afkomu sína vita hvernig það er. Maður telur hverja einustu krónu, maður vonast til að þurfa ekki að fara til tannlæknis, maður vonast til að það springi ekki á bílnum eða eitthvað komi upp á sem kallar á aukin fjárútlát.

Ástandið var slæmt fyrir hrun, það var enn þá verra í hruninu og það er því miður í því góðæri sem mikið er talað um hjá núverandi ríkisstjórn mjög slæmt hjá allt of mörgum. Maður sá það í hruninu og þess vegna er gríðarlega vont hversu lengi og djúpt var skorið ofan í heilbrigðiskerfið sem var svelt fyrir. Á hinum svokölluðu góðæristímum var heilbrigðiskerfið markvisst svelt og ekki mikla fitu að skera þegar þurfti að skera í hruninu. Heilbrigðiskerfið, spítalarnir okkar, heilsugæslan og þjónusta við fólk úti á landi er í molum. Ég skal segja ykkur eitt, kæru hv. þingmenn, þetta er ekki óviljaverk. Þetta er markvisst gert. Núna á að byrja að einkavæða það sem er búið að svelta og taka súrefni frá svo lengi. Það á að byrja að einkavæða heilsugæsluna. Það vantar sárlega lækna sem hafa hug á að verða heimilislæknar og allt of margir hérlendis búa við þann veruleika að hafa ekki eigin heimilislækni. Engin þessara stóru vandamála sem ég er hér að tala um fá nauðsynlegt súrefni til að þetta haldi ekki áfram að molna að innan. Í síðustu fjárlögum var til dæmis samþykkt að velta réttinum til atvinnuleysisbóta yfir á sveitarfélögin. Mörg þeirra eru í mjög slæmum málum þannig að það byrjar að hafa áhrif á menntakerfið, t.d. grunnskólakerfið. Við verðum að hafa í huga, það er svo mikilvægt, að fjárlögin hér eru ekki eitthvert kerfi sem tengist ekki hverjum og einum. Þær ákvarðanir sem hér eru teknar munu hafa áhrif á alla landsmenn á hverjum degi í heilt ár og jafnvel lengur, sér í lagi ef fólk fær ekki nauðsynlega þjónustu á til dæmis spítölunum til að hljóta ekki varanleg örkuml af eða jafnvel deyja. Þetta kerfi, fjármálakerfið, fjárlagakerfið, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, sveitarstjórnarkerfið, er allt einn líkami, eitt vistkerfi. Þetta vistkerfi hefur áhrif innbyrðis. Þegar við veltum stórum útgjaldaliðum yfir á sveitarfélögin skerðast lífsgæði þeirra sem búa í þeim sveitarfélögum. Þegar við tökum þessar ákvarðanir án þess að líta á Ísland sem eitt vistkerfi eru alltaf einhverjir sem falla í gegnum sístækkandi möskvana og það er mjög slæmt. Þess vegna hefur fólk misst svo mikið trúna á vinnuna okkar hér. Ef ég hefði fylgst með umræðunum hérna áðan úti í bæ hefði ég bara hugsað: Hvers konar vitleysingahæli er þetta eiginlega? Er þetta fólkið sem við treystum til að líta eftir hagsmunum þjóðarinnar í heild? Því miður kemur upp í þennan ræðustól hæstv. fjármálaráðherra og segir hreinlega við okkur hin sem þó erum fulltrúar fyrir fjölmarga Íslendinga á Alþingi Íslendinga að það sé engin ástæða til að hlusta á þær tillögur sem minni hlutinn kemur með til að lagfæra þetta fjárlagafrumvarp.

Ég er nú enginn gamlingi á Alþingi en ég hef þó verið hér lengur en margir, merkilegt nokk, og þá er ég að tala um í þingvetrum talið, og veit að sú hefð sem hér hefur skapast um fjárlagaumræðuna er ekkert skrýtin einfaldlega af því að það er alltaf verið að hringla með fjárlagarammann, hvernig við vinnum með fjárlögin á Alþingi og hvenær fjárlögin koma inn í þingið frá fjármálaráðuneytinu. Það er gríðarlega lítið gagnsæi í kringum fjárlögin sjálf. Það er mjög erfitt að setja sig inn í þessi mál. Þó að við höfum alla pappírana er ekki einu sinni yfirlit um mismunandi ráðuneyti og liði eða samanburður við fjárlagaliði fyrri ára. Fyrir óbreytta borgara sem samþykkt fjárlaganna mun hafa gríðarleg áhrif á er ómögulegt að fylgjast með því hvaða ákvarðanir við tökum hér. Þess vegna er svo mikilvægt að þingmenn frá öllum flokkum tjái sig ítarlega um það og þá liði fjárlaganna sem þeim finnst mikilvægast að koma á framfæri. Það eru mjög upplýsandi umræður sem maður getur orðið vitni að í þingsal þegar sér í lagi sérfræðingarnir sem hafa setið í fjárlaganefnd fara yfir og reifa skoðanir sínar. Mér finnst svo ótrúlega mikið virðingarleysi að tala um þessa umræðu eins og þetta sé bara eitthvert málþóf. Mér finnst það fullkomið virðingarleysi og mér finnst við vera komin á þann stað hér á þinginu að okkur er ómögulegt að finna einhverja leið til að auka veg og virðingu þessa vinnustaðar og ég veit ekki hvort það tekst á þessu kjörtímabili. Mér finnst það mjög ólíklegt. Mér finnst það mjög leiðinlegt og ég vil bara biðja almenning velvirðingar á því hvernig þessi staður virkar úti í samfélaginu og hvernig sú umræða sem hér er varpast út í samfélagið.

Því miður sagði forsætisráðherra hreinlega: Það verður ekki samið um neitt.

Ég vil bara segja hæstv. forsætisráðherra að okkur er alveg sama því að hæstv. forsætisráðherra er í gegnum sína formennsku yfir ríkisstjórninni búinn að afhenda Alþingi fjárlögin. Hann hefur hreinlega ekki neitt úrskurðarvald um það hvort við þingmenn allra flokka breytum fjárlagafrumvarpinu eða ekki eða hvort við setjumst að samningaborðinu eða ekki. Hæstv. forsætisráðherra hefur hreinlega ekki neitt um það að segja, enda ætti hæstv. forsætisráðherra ef til vill að hafa það í huga að það er þingið sem ræður en ekki hann.

Þá vil ég venda mínu kvæði yfir í nokkuð sem við píratar og fleiri höfum lagt mikla áherslu á að verði tekið tillit til í fjárlagagerðinni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi fjárlaganefnd bréf þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segir að hún sé einhuga um að sú forgangsröðun sem umboðsmaður Alþingis sýndi í lekamálinu og forustumenn ríkisstjórnarinnar hnýttu í hafi verið eðlilegt verklag. Nefndin vill að embættið fái aukafjárveitingu upp á 15 milljónir, sér í lagi og sérstaklega til að geta sinnt frumkvæðisathugunum og rannsóknum. Mér finnst þetta mjög brýnt mál. Sem betur fer var það þannig í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að allir nefndarmenn, alveg sama frá hvaða flokki þeir komu, voru sammála um mikilvægi sjálfstæðis og getu umboðsmanns Alþingis til að sinna sínu starfi þegar kemur að frumkvæðisathugunum. Þetta er mjög brýnt.

Það er líka annað sem við teljum mjög brýnt. Sem betur fer er verið að setja einhverja peninga í löggæslumálin en af einhverjum ástæðum er Fangelsismálastofnun enn alvarlega svelt og í staðinn fyrir, eins og margir telja brýnt, að huga að betrun en ekki frelsissviptingum og refsingum erum við á þeim stað að það er ekki einu sinni hægt að taka á móti fólki í fangelsin. Þau eru yfirfull. Þetta þekkja allir. Dómar fyrnast jafnvel eða fólk er sett í fangelsi við nánast endalok biðtímans þar sem fólk er búið að bíða í ár eða lengur eftir að fá að afplána og hefur umturnað lífi sínu. Það sem birtist í fjárlögunum er ekki í anda betrunar.

Ég hefði viljað vera jákvæð gagnvart þessum fjárlögum en fjárlagafrumvarpið kom allt of seint. Ef maður er til dæmis að skila af sér bók eða einhverju slíku og skilar henni of seint er hún ekki með það árið og send yfir á næsta ár, í næsta jólabókaflóð. Við höfum ekki það val á Alþingi. Við verðum að gjöra svo vel og taka við hráu, illa unnu fjárlagafrumvarpi sem er svo mikið breytt á milli 1. og 2. umr. af ráðherra sjálfum að það er ómögulegt að skilja allar breytingarnar. Þær eru svo illa unnar að risastór útgjaldaliður þegar kemur að launahækkunum hjá kennurum gleymdist. Þetta er ekki sú stjórnsýsla sem mig dreymir um, ég verð að segja alveg eins og er. Mér finnst þessi stjórnsýsla hneisa og ein af grunnástæðunum fyrir því hversu illa fer fyrir Alþingi þegar kemur að trausti sem er svolítið ósanngjarnt af því að ég mundi segja að mjög mikið af vandræðum okkar hér væri vegna þess að framkvæmdarvaldinu hefur verið falið allt of mikið vald eins og sjá má í mörgum málum sem hér hafa komið inn. Ber þar að nefna til dæmis Þróunarsamvinnustofnun og allt ruglið í kringum það mál en við höfum falið ráðuneytunum allt of stórt valdsvið til að gera það sem þeim sýnist án þess að gagnsæi sé um störfin og oft skynjar maður það sem svo að ráðherrarnir sjálfir séu ekkert alveg fullkomlega meðvitaðir um það sem þeir eru að flytja hér. Það er eins og ræðurnar séu samdar fyrir þá í ráðuneytunum og þeir hreinlega anna því ekki að setja sig almennilega inn í málin sem mér finnst fáránlegt. Mér finnst það fullkomlega óboðlegt. Við fáum hingað inn skipanir frá einhverju fólki sem við vitum ekki einu sinni hvernig lítur út og var aldrei kjörið til að marka þær stefnur sem hér eru samþykktar, oft án mikillar umræðu, ígrundunar eða yfirlegu einfaldlega af því að ekki vinnst tími.

Það er gleðilegt að við erum þó komin tiltölulega skammt inn í desembermánuð og höfum því haft tækifæri þó að fjárlagafrumvarpið komi svona seint inn til að fara ítarlega yfir það. Það er gott af því að það kemur svo illa unnið. En ég skal lofa ykkur því að það verður fullt af klaufagöllum í þessum fjárlögum sem geta nota bene haft áhrif á líf fjölda fólks. Mér finnst það óboðlegt. Virðingarleysi ríkir gagnvart lagabókstafnum hér inni. Allir hér inni hafa svarið þess eið að fylgja lagabókstafnum en á sama tíma er hann svo illa skrifaður að enginn skilur hann. Það er óboðlegt og ég ætla rétt að vona að þegar næstu fjárlög liggja fyrir verði þau á þann veg að hver sem hefur áhuga á að skoða þau og skilja geti gert það. Það er ekki þannig í dag og hefur sennilega ekki verið síðan sautján hundruð og súrkál.

Þeir sem hafa fylgst með störfum mínum á Alþingi eru þess meðvitaðir að mér finnst mjög mikilvægt að efla og styrkja Alþingi. Mér finnst mjög mikilvægt að við þingmenn mótum stefnur á þann veg að það sé ekki bara eitthvert meirihlutaræði eins og hér hefur væntanlega verið alla tíð, ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta byrjaði en ég ímynda mér að meiri hlutinn hafi ráðið. Ég hef verið talsmaður þess að við mótum stórar stefnur saman og ég held að það sé alveg gerlegt. Það er kúltúr sem við þurfum að hefja og við þurfum til þess meiri stuðning og ef til vill mætti skera af fitulaginu í ráðuneytunum til að Alþingi gæti verið sterkari stofnun sem hefur meira um lagasetningu að segja. Í eðli sínu skipta lög ekkert rosalega miklu máli, eða það er mín tilfinning, ef við fáum ekki tækifæri til að móta stefnu og lög á Alþingi. Kannski, ég veit það ekki. Hins vegar er alveg ljóst að við erum komin á þann stað að við þurfum virkilega að fara að endurskoða og ígrunda hvernig við getum breytt hlutunum hér. Þó að mörgum sem eru snillingar í alls konar plottum og klækjastjórnmálum finnist sniðugt að reka stjórnsýslu og mikilvægustu stofnun landsins á þann veg að enginn viti nokkurn tímann hvernig maður á að haga vinnudeginum eða hvenær mál koma inn eða eru afgreidd er það ekki stjórnarfar sem mér finnst heillandi. Það er svo úrelt eða hallærislegt að mér finnst hörmulegt að vera í þeirri stöðu að vera föst í þessari vinnubragðaspennitreyju. Mér finnst það alveg ömurlegt ef ég má vera svo heiðarleg, forseti.

Það er eitt sem ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með og kemur á óvart í þessu fjárlagafrumvarpi, það að tryggingagjaldið hafi ekki verið lækkað. Ég held að það hefðu verið mjög góð skilaboð um að hér væri verið að hugsa um lítil og meðalstór fyrirtæki, að það væri verið að gefa þeim nauðsynlegt súrefni til að geta haldið áfram að ráða fólk eða reka staðina sína. Svo er ekki og það kemur mér mjög á óvart. Ég hefði viljað sjá meiri samheldni allra þingmanna fyrir því að tryggja að þetta væri lagað.

Ég vil vekja athygli á nefndarálitunum frá 1., 2. og 3. minni hluta fjárlaganefndar. Þar eru mjög margir athyglisverðir hlutir sem ég er sannfærð um að forsvarsmenn þeirra álita hafa farið ítarlega yfir hér. Ég missti því miður af mjög stórum hluta fjárlagaumræðunnar af því að ég var erlendis á vegum Alþingis í tengslum við loftslagsráðstefnuna.

Það er eitt að lokum sem ég vil fara yfir og það er að ekki er gert ráð fyrir fjármunum í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ég geri ráð fyrir yfirlýsingu á næstu dögum frá stjórnarskrárnefnd um að það náist hreinlega ekki að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá eins og fyrirhugað var meðfram forsetakosningum. Það er töluvert hár útgjaldaliður, um 300 milljónir, sem vantar þá inn í þetta fjárlagafrumvarp og mjög bagalegt að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki hreinlega getað komið með beiðni um að þetta væri hluti af því sem við þyrftum að leggja út fyrir.

Það er sorglegt að við náum ekki að klára húsnæðisfrumvörpin sem allir eru að bíða eftir frá hæstv. félagsmálaráðherra. Þetta kemur í einhverjum bútum, deyr drottni sínum í ríkisstjórn eða liggur hálfkarað í einhverri nefnd og ekki er hægt að klára það af því að það vantar alltaf einhver fleiri frumvörp. Þetta er ekki boðlegt heldur, forseti. Hér er fólk í neyðaraðstæðum út af ástandinu á húsnæðismarkaði. Þetta eru neyðaraðstæður og eftir allan þennan tíma og öll þessi stóru loforð hefur ekkert gerst þar. Mér finnst það mjög leiðinlegt og ég bið þá sem eru í þeirri stöðu velvirðingar á því hvers konar fólk það kaus yfir sig til að taka á þessum málum sem er búið að bíða eftir svo lengi hér á landi. Ég þekki það mjög vel að vera á leigumarkaði. Það er ekki gaman. Það var ekki gaman fyrir hrun og það varð enn þá verra eftir hrun. Þeir stóru áfangar sem náðust í gegnum sómamanninn Jón frá Pálmholti heitinn fyrir réttindum þeirra sem eru á leigumarkaði virðast hafa farið aftur á bak af því að það hefur ekki verið nein framþróun. Það er enn mjög erfitt að fá leigt til langs tíma, það er erfitt að fá húsnæði á viðunandi verði. Þá skiptir svo sem engu máli hvort maður er öryrki, námsmaður, ung manneskja eða manneskja sem hefur búið við fátækt. Það getur alltaf komið upp þannig í lífinu hjá öllum að fólk lendi í þeirri stöðu að eiga ekki kost á að safna sér fyrir útborgun í húsnæði. Þess vegna líður mér eins og ég sé alltaf í Groundhog Day. Mér líður bara þannig. Það er óþægilegt og örugglega langóþægilegast fyrir þá sem bíða og bíða, eins og fólkið sem var hér fyrir utan í dag, fólk sem er búið að bíða og bíða eftir efndum á loforðunum um að rétta kjör þess eða lagarammanum utan um lífið og ekkert gerist.

Eins og ítrekað hefur komið fram eru leiðir til að fjármagna afturvirka launahækkun hjá öryrkjum og eldri borgurum sem fá laun sín frá Tryggingastofnun. Ef þverpólitískur vilji væri til að taka aðeins af þeim sem hafa það best, t.d. með því að halda orkuskattinum áfram eða veiðigjöldunum þar sem fyrirtæki eru að græða á okkar sameiginlegu auðlindum, væri þetta ekkert vandamál. Við gætum leyst þetta og tryggt að hér skapaðist ekki jarðvegur fyrir flokka á næsta kjörtímabili sem ala á ótta, tortryggni, andúð og almennum viðbjóði sem felst í því að sundra fólki og gefa í skyn að ákveðnar tegundir af fólki séu verri en aðrar eða til að vera hræddur við. Það hefur borið svolítið á því í umræðunni um til dæmis hælisleitendur af hverju við erum ekki að sinna bara okkar eigin veiku og fátæku. Það er þannig, og hefur lengi verið, að hluti af okkar alþjóðlegu skuldbindingum er að taka á móti þeim sem sækja um hæli eða skjól. Við erum hluti af alþjóðasamningum þar að lútandi og ef við viljum segja okkur hreinlega úr alþjóðasamfélaginu getum við svo sem gert það en persónulega finnst mér það mjög óspennandi tilhugsun. Við gætum það hvort eð er aldrei hvað sem hver segir.

Ég vil bara ljúka þessum orðum mínum á því að segja að mér finnst mjög mikilvægt að við séum vakandi fyrir því að ef við berjumst ekki fyrir þeim sem minnst mega sín í samfélagi okkar, berjumst ekki fyrir öryrkjum og eldri borgurum, berjumst ekki fyrir þeim sjúku og fátæku þegar þeir kalla til okkar eftir hjálp, er hætt við því að næsti hópur verði næstur til að verða úthrópaður og lifa við óboðlegar aðstæður eins og hefur gerst í raun með heilbrigðiskerfið. Ég var svo stolt af og ánægð með margt í heilbrigðiskerfi okkar á árum áður. Ég hef búið víða erlendis og okkar kerfi er ekki það besta í heimi en það var svo sannarlega eitt af þeim ágætustu. Núna hef ég hins vegar til dæmis lent í því að meiða mig frekar illa og ákveðið að fara ekki upp á spítala til að vera ekki fyrir af því að ég veit að biðlistarnir eru langir. Ég veit að sumt fólk er miklu veikara en ég og þarf að komast framar. Þetta er ekki þannig heilbrigðiskerfi sem við viljum búa við þar sem fólk veigrar sér við að fá aðstoð hjá læknum eða spítölum ef eitthvað bjátar á. Við viljum heldur ekki búa í þannig samfélagi að fólk veigri sér við að fara til heimilislæknis en staðan er einfaldlega sú að mjög stór hluti landsmanna hefur engan fastan heimilislækni. Það vantar alveg yfirsýn yfir sjúkrasögu fólks og fyrir vikið greinast til dæmis hættulegir sjúkdómar ekki nægilega snemma.

Þrátt fyrir að þetta séu þau mál sem brenna mest á mér er náttúrlega fjöldamargt í þessu fjárlagafrumvarpi sem ég hefði viljað fara ítarlegar yfir en ég geri mér grein fyrir að margir þingmenn frá minni hlutanum hafa nú þegar farið yfir þau mál og kannski er óþarfi að endurtaka ræður annarra. Ég vil enn og aftur hvetja þá sem hafa áhuga á þessum mikilvæga málaflokki, þetta er stærsti pólitíski viðburðurinn á hverju einasta ári, fjárlögin, til að kynna sér eins og ég sagði áðan nefndarálit 1., 2. og 3. minni hluta fjárlaganefndar. Þetta er ekki langur lestur. Síðan hvet ég líka fólk til að kynna sér þær tillögur sem við í minni hlutanum lögðum saman fram. Mér finnst mjög mikilvægt að finna samvinnugrundvöll til að leitast við að ná fram einhverjum breytingum. Mér heyrist hæstv. forsætisráðherra ekki telja neinn grundvöll til að hlusta á alla þá Íslendinga sem kusu að treysta okkur í minni hlutanum fyrir sér. Mér finnst það sorglegt en við þingmenn minni hlutans og þingflokksformenn munum ekki láta þennan hæstv. forsætisráðherra hafa áhrif á hvað þingið gerir. Þetta vekur mann til umhugsunar um að í raun og veru væri gríðarlega gott ef ráðherrar væru ekki þingmenn á sama tíma. Það er bara hvorki gott né heilbrigt fyrir þingræðið.

Ég ætla að enda þessa ræðu mína um fjárlagafrumvarpið á að minna hv. formenn, hv. fjárlaganefndarmenn sem og þingflokksformenn meiri hlutans á að það er mikilvægt að hlusta á, viðurkenna, finna og skynja þann ótta, þann sársauka sem er settur á fólk sem er veikt fyrir út af áhyggjum af afkomu sinni. Þetta er nokkuð sem þið, hv. þingmenn meiri hlutans og formenn fjárlaganefndar, getið og eigið að laga.