145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil aðeins halda áfram. Það kom fram í umsögn Öryrkjabandalagsins vegna fjárlaganna um virðisaukaskatt á lyf, en ekki bara lyf heldur líka hjálpartæki, að á meðan tollar eru felldir niður af ýmsum vörum, hvort sem voru sjónvörp eða eitthvað annað, t.d. fatnaður, að það hefði kannski mátt geyma sjónvörpin og eitthvað slíkt og fella frekar niður eða setja í lægra þrep lyf og hjálpartæki. Vissulega þurfa allir að klæðast en eins og hv. þingmaður sagði er ekki val að þurfa að taka lyf.

Hin spurningin varðaði breytingar í skattkerfinu sem hafa verið gerðar og fyrirhugað er að gera. Ég hef miklar áhyggjur af að það gagnist ekki þeim sem lægstar hafa tekjurnar, þ.e. það eykur ekki ráðstöfunartekjur þeirra og það hefði munað ef til dæmis skattþrepið hefði verið fært. Lækkunin var í 2. þrepi en ef hún hefði verið sett í 1. þrep hefði það skipt máli upp á annars vegar í kringum 500 kr. á mánuði eða 3 þús. kr. á mánuði, þ.e. þá rúmar 35 þús. kr. á ári eða rúmar 5 þús. kr. Það skiptir allt máli fyrir þá sem lítið hafa.

Mig langaði líka til að ræða við þingmanninn um Landspítalann okkar og sjúkrahúsin, m.a. á Akureyri. Þar er fólk sem á ekki þar heima en það er vegna þess að það vantar að mínu mati algjöra framtíðarsýn í öldrunarmálum. Á hverju fjárlagaári er stundum og stundum ekki reynt að setja eitthvað fram, en það vantar heildarsýn.

Miðað við yfirlýsingar hæstv. ráðherra um þá sem standa hér úti og óska eftir því að fá leiðrétt kjör sín, svo ég haldi áfram með það, hefur maður á tilfinningunni að ætlast sé til þess að gamalmenni og öryrkjar eða sjúklingar séu (Forseti hringir.) bara settir í vinnu sem vinnumarkaðurinn er svo endilega ekkert hrifinn af því að taka í vinnu.