145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurningarnar og tek undir áhyggjur hv. þingmanns um skattkerfið. Það er svo mikilvægt þegar við erum að tala um skort á framtíðarsýn, fyrirhyggju og langtímamarkmiðum sem er unnið markvisst að. Á finnska þinginu er til nokkuð sem heitir framtíðarnefndin og ég held að við þurfum hreinlega að hafa stefnumótandi vinnu á Alþingi þar sem við förum yfir stóra málaflokka eins og framtíðarsýn um öldrunarmál, framtíðarsýn um hvernig við ætlum að framfylgja öllum þeim loforðum sem við gáfum í París síðustu vikur, framtíðarsýn um hvernig við ætlum að tryggja einhvers konar raunverulega sjálfbærni á Íslandi, hvernig við viljum reka menntakerfið eða hvernig við viljum hafa heilbrigðiskerfið okkar. Það hefur ekki verið almennileg umræða um það nema í einhverjum nefndum sem eru fyrir utan þingið þó að stundum séu þingmenn í þeim.

Við ættum að hafa nefnd þar sem við ræðum og mótum framtíðina saman á Alþingi Íslendinga. Þar getum við farið ítarlega yfir og fengið til okkar gesti sem gætu varpað sýn á það hvernig best væri að haga öldrunarmálum og svo margt annað. Ég veit að það mun ekki gerast núna. Ég er búin að reyna að koma með alls konar nýbreytni á þingi síðan ég kom hingað og það gerist ekki neitt þannig að kannski er þetta vonlaus staður til nýsköpunar, ég veit það ekki, en þetta er að minnsta kosti hugmynd sem ég ætla að leggja fram.