145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér er eiginlega orða vant þegar fólk lætur svona út úr sér eins og formaður Sjálfstæðisflokksins gerði. Þetta sýnir ótrúlega mikið skilningsleysi á aðstæðum fólks. Við getum ekki rekið velferðarkerfi á þann veg að við ætlum að lækka það lægsta af því að einhverjir eru hugsanlega í einhverjum aðstæðum sem þarf að bregðast við. Það þarf að bregðast við þeim aðstæðum ef ungir menn eru að flosna upp úr skóla, þá vantar greinilega eitthvað upp á að finna leiðir fyrir fólk til að fara út á vinnumarkaðinn. Þetta eru mjög gjarnan strákar sem ættu að vera í einhvers konar verklegu námi, oft tölvutengdu námi, eða það eru einhverjar félagslegar aðstæður sem þarf að laga. Það er lélegt að nota það sem afsökun til að halda öllum þannig niðri að þeir geti ekki lifað með reisn, geti ekki lifað einn einasta mánuð án þess að vera áhyggjufullir og hræddir um afkomu sína og sinna. Svona málflutningur kemur einvörðungu frá fólki sem hefur aldrei þurft að búa við fátækt, fólki sem hefur aldrei þurft að sleppa því að borða eða sleppa því að kaupa nauðsynleg lyf af því að það á ekki pening fyrir þeim eða sleppa því að fara til tannlæknis og að krakkarnir komist til tannlæknis.

Það er bara fólk sem hefur aldrei þurft að lifa við skort sem talar svona og það veldur mér ógleði.