145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru fleiri en ungir menn á örorku einhverra hluta vegna. Þar undir eru þúsundir manna og eldri borgarar líka þannig að það er mjög einkennilegt að menn leiti sér að afsökun sem menn halda að falli í kramið úti í samfélaginu til að halda þessum stóra hópi undir lágmarkslaunum. Andi laganna um almannatryggingar er ekki sá að halda þeim sérstaklega sem fátækasta hópi samfélagsins, þeim sem eru komnir á efri ár og geta ekki unnið vegna örorku, heldur er andi laganna að mínu viti sá að standa vörð um kjör þessa fólks og sjá til þess að það verði einmitt ekki fátækasti hópurinn í samfélaginu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að þarna eigi ekki að horfa á kalda lagahyggjuna heldur á anda laganna. Það hefur áður verið gert, það var gert í kjarasamningunum 2011.

Ef hv. þingmaður hefur tíma í seinna andsvari væri gott að fá viðbragð við kafla í nefndaráliti meiri hlutans um íþyngjandi löggjöf. Þar eru taldar upp eftirlitsstofnanir, þar á meðal umboðsmaður Alþingis sem hv. þingmaður ræddi um í ræðu sinni. Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um þetta sem íþyngjandi löggjöf eftirlitsstofnana sem bitnar á þeim atvinnuvegum sem þær stofnanir þjóna. Hins vegar er hvergi talað um neytendur eða almenning í þessu sambandi. Umboðsmaður Alþingis er settur þarna undir. Ég bið hv. þingmann að bregðast við þessu.