145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurningarnar. Mig langar líka að nota tækifærið og þakka fulltrúum minni hlutans í fjárlaganefnd fyrir ítarlega og góða vinnu í nefndinni sem hefur gagnast okkur hinum í minni hlutanum mjög vel við að hafa betri yfirsýn yfir fjárlögin.

Þingmaðurinn spyr um íþyngjandi löggjöf, eftirlitskerfin öll og ferlana sem við vorum að reyna að setja reglur um eftir hrun til að fyrirbyggja þá kerfislægu vanhæfni sem birtist mjög víða í samfélaginu. Ég rifjaði áðan upp fundina sem við áttum með höfundum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis áður en hún var birt og hvað fólki var mikið niðri fyrir um hversu slæm tíðindi það flytti þjóðinni. Úr því að talið berst að því að setja fókusinn á ranga hópa, um hverja á að passa að svindli ekki, megum við ekki gleyma allri umræðunni um bótasvindlarana og að gera lög þannig úr garði að fólki eigi að líða nánast eins og glæpamönnum ef það þarf að fá aðstoð frá samfélaginu sínu. Mér finnst það ekki góð þróun og ég get ekki stutt hana á neinn hátt.

Hæstv. forsætisráðherra kom hér fram í dag og sagði að það væri ekki um neitt að semja við minni hlutann. Hann sagði það nákvæmlega hér uppi í pontu og hreykti sér mjög af því að hann væri forstjóri Alþingis. Ég vil bara minna hæstv. forsætisráðherra á að hann er það ekki enda bar ekki nokkur maður fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma í dag. Fólk er nánast búið að gleyma að viðkomandi maður mæti hér af og til og eigi að vera forstjóri ríkisstjórnarinnar.