145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara aðeins yfir nokkra þætti frumvarpsins í annarri ræðu minni hér. Ég vil eyða nokkrum tíma í að bregðast við beiðni hæstv. fjármálaráðherra í morgun um að ræða hinn hagræna grunn fjárlaganna, stóru myndina sem hann auglýsti eftir og sagði að ekkert hefði verið rædd í þessari umræðu.

Fyrst vil ég rifja aðeins upp þau meginsjónarmið sem skipta okkur í stjórnarandstöðunni máli við þessa umræðu. Ég held að ég geti talað fyrir okkur öll. Það er að brugðist verði við eðlilegum óskum yfirstjórnar Landspítalans um úrbætur og að líka verði brugðist við því að tryggja Ríkisútvarpinu fullnægjandi fjármagn til samræmis við þá pólitísku samstöðu sem hefur skapast um það í stjórn þess og stóru kröfuna um að lífeyrisþegar muni njóta sams konar afturvirkra kjarabóta og launafólk.

Ég vil í upphafi máls míns fara aðeins yfir það mál sérstaklega og margháttaðan stórfurðulegan skilningsskort hæstv. fjármálaráðherra á því máli, og ef það er ekki skilningsskortur þá vísvitandi tilraunir hans til að afvegaleiða umræðuna um kjarabætur til handa lífeyrisþegum, sem gætti í viðtali við hann í útvarpsþættinum Sprengisandi í gærmorgun. Þá setti hæstv. ráðherra, eins og alþjóð er kunnugt, kröfur okkar í samhengi við stöðu láglaunafólks á vinnumarkaði og vildi með þeim hætti skapa einhvers konar úlfúð eða togstreitu á milli lífeyrisþega annars vegar og láglaunafólks hins vegar. Það sem mátti skilja af orðum hæstv. ráðherra var að það væri með einhverjum hætti slæmt fyrir láglaunafólk ef lífeyrisþegar fengju sams konar kjarabætur og það. Sú uppstilling að stilla upp sem andstæðum annars vegar þeim sem eru duglegir að vakna á morgnana og vinna fyrir sínu og hins vegar lífeyrisþegum hefur óþægilegan hljóm. Við heyrum samhljóm við þessa orðræðu núna hjá ríkisstjórn breska Íhaldsflokksins sem hefur gengið fram af mikilli einurð og heift gegn lífeyrisþegum og stillt upp þeirri mynd að allir sem þurfi á opinberum lífeyri að halda séu afætur á samfélaginu og samfélaginu almennt til tjóns. Mér finnst með ólíkindum dapurlegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli skipa sér í þann hóp.

Þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra í morgun um bakgrunn þessara orða og hugmyndirnar sem lægju að baki fór hann að tala um allt aðra hluti en kjör lífeyrisþega almennt. Þá rakti hann það sem okkur er nú öllum vel kunnugt, að hópur ungs vegalauss fólks, einkum pilta, finnur sig hvorki í skóla né vinnu og er í mikilli hættu á félagslegri einangrun og verða utanveltu í samfélaginu. Það þarf ekki að kenna okkur sem stóðum að síðustu ríkisstjórn neitt um þennan hóp, enda stóðum við fyrir einstæðum fjölda úrræða fyrir hópinn á krepputímum á síðasta kjörtímabili og unnum það afrek sem eftir hefur verið tekið víða um lönd að draga úr atvinnuleysi ungs fólks hraðar en atvinnuleysi annarra í upphafi niðursveiflunnar. Það gerðum við með því að nýta Atvinnuleysistryggingasjóð til að fjármagna fjölbreytt mennta- og þjálfunarúrræði fyrir hópinn þegar við hófum átakið Ungt fólk til athafna. Það voru 23 úrræði í boði sem fólk gat valið úr, alls konar náms- og þjálfunarúrræði sem mörg hver voru innan hins opinbera framhaldsskólakerfis en mörg líka utan þess. Framlag núverandi ríkisstjórnar var í upphafi starfstímans að leggja af öll þessi verkefni. Hún hefur því ekkert gert til að draga úr félagslegri einangrun nákvæmlega þess hóps sem hæstv. fjármálaráðherra notar nú sem skálkaskjól til að hækka ekki lífeyri allra annarra.

Þar fyrir utan þarf hæstv. ráðherra að kynna sér eitthvað tölfræðina. Hópurinn sem hann er að tala um, ungir vegalausir piltar, hversu stór hluti er hann af heildarfjölda lífeyrisþega? Til upprifjunar og upplýsingar fyrir þingheim, þó að hæstv. ráðherra láti ekki svo lítið að vera hér, þá voru ellilífeyrisþegar árið 2014 31.342. Örorkulífeyrisþegar voru allir saman 16.300. Sumir þeirra búa við líkamlega örorku og sumir við andlega örorku. Þeir eru á öllum aldri. Mér finnst að áður en hæstv. ráðherra ákveður að setja hóp sem er tæplega 48 þús. manns, miðað við tölurnar 2014, skör lægra í samfélaginu vegna einhverrar meintrar hættu á að einhver afmarkaður hluti þess hóps séu ungir menn sem hafi leiðst út í örorku, eins og hann orðaði það í morgun, eða fest í neti, eins og hann orðaði það líka, þá skuldi hann okkur fyrst skýringar af því hversu stór hluti af þessum 48 þúsundum sá hópur er. Mér er það til efs að hann sé fjölmennari en 2 þúsund. Það væri mjög sérkennilegt, ef kenning hæstv. ráðherra gengi upp, að refsa yfirgnæfandi meiri hluta hópsins vegna þess að það henti ekki að bæta kjör einhverra örfárra úr hópnum.

Ríkisstjórnin gæti lagt fram til aðstoðar, ekki bara úrræði sem við bjuggum til á síðasta kjörtímabili til þjálfunar og náms fyrir þennan hóp vegalausra ungra pilta heldur gæti hún líka beitt sér fyrir breytingum á sveigjanlegri vinnumarkaði, sérstaklega ef það sem liggur í orðum hæstv. fjármálaráðherra er rétt að það þurfi að greiða fyrir því að fólk lendi síður á örorku vegna andlegra veikinda. Þá þarf úrræði til að hjálpa fólki frá því. Það er eins og hæstv. ráðherra og félagar hans í breska Íhaldsflokknum horfi fram hjá því að örorka vegna andlegra veikinda er alveg jafn gild örorka og önnur örorka. Fólk sem er veikt og getur ekki unnið fyrir sér er veikt og getur ekki unnið fyrir sér. Það geta vissulega verið ýmsir hvatar í kerfinu eins og það er upp byggt í dag sem torvelda fólki leiðina frá örorku og greiða leiðina fyrir fólk í örorku, en það er ekki hægt að segja að það sé almennt, eins og hæstv. fjármálaráðherra lét liggja að hér í dag, að fólk sem er af andlegum krankleika öryrkjar væri skör lægra sett en þeir sem eru öryrkjar vegna líkamlegrar örorku.

Enn og aftur hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er hlutfallið? Hefur hann skoðað hlutfallið af þessum 16 þús. öryrkjum? Hversu margir eru líkamlegir öryrkjar og eru þar af leiðandi í öðrum flokki í augum hæstv. ráðherra en hinir sem virðast vera einhver undirstétt í hópi öryrkja í hans augum?

Ég held að allir sjái sem fara í gegnum rökfærsluna að málflutningur hæstv. fjármálaráðherra er að öllu leyti óboðlegur. Hann er ósæmandi hæstv. ráðherra, hann er ósæmandi Sjálfstæðisflokknum sem hæstv. ráðherra leiðir og hann er beinlínis til þess fallinn að ýta undir fordóma í garð þeirra sem eru öryrkjar af andlegum orsökum.

Ég vildi minna á það í þessu sambandi að ef vilji ríkisstjórnarinnar stendur til þess að draga úr nýgengi örorku þá er það verkefni sem við þurfum samfélagslega samstöðu um. Hæstv. fjármálaráðherra lét hér orð falla í garð Samfylkingarinnar sérstaklega í morgun og sagði að það væri erfitt að koma því inn í hausinn á samfylkingarfólki, eins og hann orðaði það svo skemmtilega, að ýmsar ytri aðstæður gætu stuðlað að auknu nýgengi örorku. Það er alrangt og ósæmilegt af honum að halda því fram. Við höfum á því fullan skilning. Hann gerði það síðan að sérstöku umtalsefni og blandaði öllu saman í morgun eins og hann gerir iðulega. Hann tengdi þetta líka við fjárhagslegan stuðning sveitarfélaga sem er allt annað mál og eru fjárhæðir sem eru misjafnar milli sveitarfélaga. Sumar duga rétt fyrir allra brýnustu nauðsynjum en í öðrum sveitarfélögum eru fjárhæðir félagslegrar aðstoðar nær því að fylgja atvinnuleysisbótum og allt þar á milli.

Það eru mismunandi skoðanir innan Samfylkingarinnar á því hversu langt er skynsamlegt að ganga í skilyrðingu slíkrar aðstoðar eða virkni. Ég hugsa að það sé almennt þannig að við teljum að það þurfi að fara varlega. Sumir eru alfarið á móti því en sumir telja að það geti verið réttlætanlegt og geta fært fyrir því gild rök. Við höfum staðið fyrir því á sviði sveitarstjórna víða að koma á hóflegum kerfum skilyrðingar til að bregðast við þeim vanda að fólk festist í fátæktargildru. Ástæðan fyrir því að það þarf að fara varlega við slíkt er að við höfum dæmi um það að skoðanabræður og -systur hæstv. fjármálaráðherra í breska Íhaldsflokknum eru búin að ryðja þúsundum burt af bótum í Bretlandi með því að bjóða fólki störf sem það hefur engar forsendur til að sinna, sem lágmarkshæfnismat hefði getað sýnt fram á að fólkið gat ekki sinnt. Það er andstyggilegt. Ef menn ganga of langt í að mæla bót skilyrðingum geta þeir búið í haginn fyrir slíkar aðstæður. Það er þess vegna sem við í Samfylkingunni höfum viljað fara varlega í því efni. Þar sem við höfum komið að því að beita skilyrðingum, eins og í Reykjavík að sumu leyti en sérstaklega í Hafnarfirði, höfum við gert ríkar kröfur til fagmennsku þegar þeim er beitt.

Ég hef nú eytt óþarflega löngum tíma í ræðu minni í þetta mál en ég var gersamlega yfirkominn af hneykslun yfir orðum hæstv. fjármálaráðherra í útvarpinu í gær og hér í morgun að óhjákvæmilegt var að víkja að því. Þetta sýnir einfaldlega andstyggilega orðræðu sem á ekki heima í íslensku samfélagi. Hæstv. ráðherra hefur greinilega gert of mikið af því að lesa bullið og viðbjóðinn sem hefur oltið upp úr flokkssystkinum hans í Bretlandi upp á síðkastið.

Hæstv. ráðherra óskaði eftir því hér í morgun að við mundum ræða hinar hagrænu stærðir í þessu máli. Það vil ég gjarnan gera og vitna í Stefnu og horfur, litla bæklinginn sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, og þá sérstaklega bls. 92 og áfram þar sem fjallað er um fjárveitingar til hinna stóru þátta, rekstrar, tilfærslna, viðhalds og fjárfestinga og hvernig gert er ráð fyrir að frumútgjöld án óreglulegra liða þróist á næstu árum. Þar kemur í ljós að allur gorgeir forustu fjárlaganefndar og hæstv. fjármálaráðherra um aukin framlög til lífeyrisþega, allir talnaleikirnir, allt blaðrið um 100 milljarða á einhverju óskilgreindu tímabili, er innstæðulaus þegar rauntölur eru greindar. Í greinargerðinni á bls. 92 er að finna mynd yfir frumútgjöld án óreglulegra liða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 2002–2019. Af henni má ráða að eftir hrun hafi hlutfall frumútgjalda ríkisins, þ.e. gjalda án óreglulegra liða og vaxtakostnaðar, verið komið undir 25% á árinu 2013 eftir aðhaldsaðgerðir þeirrar ríkisstjórnar. Þá var vel að merkja komið jafnvægi á ríkisútgjöldum. Samkvæmt þessum áætlunum og þessari niðurhallandi mynd er gert ráð fyrir því að hlutfall frumútgjalda verði um 24% á árinu 2016 og lækki í 23% af vergri landsframleiðslu til 2019. Það þýðir að þessi frumútgjöld lækka á árabilinu 2013–2016 um 20 milljarða og svo um enn aðra 20 milljarða til ársins 2019. Þetta eru tölurnar sem liggja fyrir af hálfu stjórnarmeirihlutans sjálfs.

Þegar er síðan horft á aðra mynd á sömu opnu, á bls. 93, er að finna mynd yfir útgjaldaþróun vegna rekstrar, tilfærslna, viðhalds og fjárfestinga án óreglulegra liða og þar eru tilfærslur án atvinnuleysisbóta svört lína sem lætur ekki mikið yfir sér en til tilfærslna teljast útgjöld til almannatrygginga og það er langstærsti liðurinn. Hvað kemur þar fram? Frá 2013 er gert ráð fyrir áframhaldandi samdrætti útgjalda til tilfærslna sem lækka um 0,6% af vergri landsframleiðslu yfir tímabilið. Planið hjá ríkisstjórninni er með öðrum orðum að draga saman í tilfærslunum á næstu árum.

Hæstv. fjármálaráðherra og forusta fjárlaganefndar geta komið hingað og barið sér á brjóst og sagt: Aldrei hærri krónutala — eins og krónutala skipti máli — aldrei meiri útgjöld til velferðarmála, aldrei meira fé til Landspítalans, aldrei meira. — Þið þekkið þennan söng!

Í stefnuplagginu sjálfu, sem hæstv. ráðherra óskaði sérstaklega eftir hér í morgun að yrði rætt, kemur fram að ætlunin sé að draga úr hlutdeild samneyslunnar í ríkisútgjöldum sem nemur líklega, ef það er tekið saman að fyrst og fremst verði dregið saman í velferðarmálum, um 60–70 milljörðum frá því sem um var að tefla fyrir hrun miðað við núgildandi verðlag og landsframleiðslu því að það er auðvitað eina viðmiðið sem hægt er að horfa til. Ég fagna því auðvitað ef hæstv. fjármálaráðherra vill ræða þessi lykilatriði og staðreyndir mála og hætta að fela sig á bak við talnaleiki og krónutölur sem hann rokkar með fram og til baka í tíma. Þetta eru hin stóru hugmyndafræðilegu skilaboð af hálfu stjórnarmeirihlutans. Það er eðlilegt að taka þau alvarlega.