145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil í þessu ljósi velta upp kjörunum sem fólk sem hefur staðið hérna úti býr við, bæði eldri borgarar og öryrkjar, m.a. vegna þess að gjarnan er vísað í lífeyrissjóðina og að það eigi að taka fyrst tekjur sínar þar og síðan hjá Tryggingastofnun. Þrátt fyrir að það sé um 2% hækkun á ári, þ.e. hlutur lífeyrissjóðanna, þá erum við enn með heila kynslóð sem er búsett erlendis, heimavinnandi húsmæður sem hafa verið það í gegnum tíðina o.s.frv., sem við þurfum að mæta, fólk sem hefur ekki haft tækifæri til að leggja í lífeyrissjóði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þau úrræði sem hafa verið veitt varðandi þá sem veikast standa, hvort sem það er fólk með geðræn vandamál eða annað, af því að hér hefur verið talað um ýmis önnur úrræði eins og varðandi menntamálin o.fl., hvort það ástand sem ríkir í menntamálum þjóðarinnar eftir að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) beitti sér fyrir breytingu á kerfinu í gegnum fjárlög sé ekki hluti af því að við náum ekki veikum ungum einstaklingum (Forseti hringir.) inn í kerfið aftur eða öllu heldur til að fara að vinna. Er hv. þingmaður sammála mér um það að vinnumarkaðurinn(Forseti hringir.) sé ekki sérlega áhugasamur um fólk með slíkan vanda, að taka það í hlutastarf?