145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni og formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, fyrir mjög góða ræðu og þá ekki síður fyrir framlag hans til umræðunnar í morgun þegar hann beindi fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar. Þeir ræddu yfirlýsingar hins síðarnefnda í útvarpi yfir helgina um þróun örorku í landinu. Það var að skilja á máli hæstv. fjármálaráðherra að menn gerðu sér það nánast að leik að láta færa sig yfir á örorku þótt hann benti jafnframt á að fjölgun öryrkja fælist að hluta til í því eða mætti skýra með því að ungir menn hrektust út af vinnumarkaði og brotnuðu niður andlega, ættu þannig við sjúkdóma að stríða, þannig að þetta tvennt kæmi til.

Mig langar að beina því til hv. þingmanns hvort hann telji að vinnumarkaðurinn sé að verða grimmilegri og ómannúðlegri en hann áður var. Ég er ekki í nokkrum vafa um það sjálfur að það varð mikil breyting á 10. áratugnum hvað þetta snertir borið saman við fyrri tíð. En er þetta gerast aftur núna og herðast eða skýrist þetta að einhverju leyti af strangara og erfiðara félagslegu umhverfi? Við vitum að tekjusnautt fólk á erfiðara með að sækja heilbrigðisþjónustu nú orðið vegna mikils kostnaðar. Hvar liggja þessar skýringar að mati hv. þingmanns?