145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svörin liggja jafnt í vinnumarkaðinum sem í skólakerfinu að mínu viti og þess vegna þarf mjög fjölbreytt úrræði til að bregðast við vandanum. Þegar ég tók við sem félagsmálaráðherra þá blasti við sú hætta að þessi fjöldi mundi aukast mjög hratt og mikið. Þess vegna gripum við til fjölþættra aðgerða. Fyrsta verkið var að ég lengdi tímabil endurhæfingarlífeyris úr 18 mánuðum í 36 þannig að lengri tími gæfist til að vinna með einstaklingum sem voru á leiðinni í örorku þannig að þeir væru ekki úrskurðaðir í örorku tafarlaust.

Síðan bjuggum við til gríðarlegan fjölda nýrra úrræða, 23 ný úrræði undir heitinu Ungt fólk til athafna sem voru öll fjármögnuð úr Atvinnuleysistryggingasjóði og við tókum frá fjármagn upp á 800 millj. kr. í það verkefni á mesta niðurskurðartíma í vestrænni sögu. Blessunarlega gekk ekki allt það fé út en við vorum tilbúin að verja því með þeim hætti.

Við opnuðum framhaldsskólana og skárum ekki niður við þá eins og nú er verið að gera. Við opnuðum Háskóla Íslands líka. Það er engin tilviljun að árið 2013 var metútskrift úr Háskóla Íslands, 35% fleiri útskrifaðir en árið 2008. Af hverju skyldi það nú vera? Það er vegna þess að stjórnvöld tóku ákvörðun um það að opna skólana, búa til tækifæri, skapa nýja möguleika fyrir fólk. Síðan þarf auðvitað starfsendurhæfingu sem virkar og það þarf samvinnu við vinnumarkaðinn. Vinnumarkaðurinn er eins og hv. þingmaður rekur gríðarlega ósveigjanlegur og það er svolítið skrýtið vegna þess að auðvitað ber vinnumarkaðurinn kostnað af jafnt starfsendurhæfingu sem og örorkubótum og á að gera það. En það á að vera hvati fyrir fyrirtækin og þau eiga að geta grætt á því að vera með fjölbreyttar lausnir. Það eru eiginlega engin störf í boði fyrir þá sem vilja vinna hluta úr degi en ekkert okkar er 100%. Ég er það ekki og ég veit ekki um hv. þingmann, hann er reyndar örugglega í hærri prósentu en ég, en ég er þó langt frá því að vera 100%, hvað þá að ég geti verið nálægt því að vera 100% alla daga. Við erum ólík í eðli okkar og við eigum öll að geta lagt af mörkum eftir getu.