145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverður vinkill hjá hv. þingmanni. Ég fann það á flokksþingi þýskra jafnaðarmanna sem ég sótti í síðustu viku að þar var mikil áhersla á að auka hæfileika og möguleika fólks á að leggja af mörkum eftir fjölbreyttri getu. Það er eftirtektarvert að sjá hvernig hægri vængurinn í Evrópu og sérstaklega Íhaldsflokkurinn í Bretlandi gengur fram í þessum málum. Það ógeðfelldasta sem ég hef séð af mörgu ógeðfelldu frá þeim flokki var um daginn þegar þeir lögðu til að atvinnuleysistryggingar yrðu gerðar að séreign þannig að ef maður væri ekki búinn að borga í atvinnuleysistryggingasjóð fengi maður engar atvinnuleysisbætur.

Afstaða okkar jafnaðarmanna hefur verið sú að atvinnuleysi er félagsleg aðgerð, hún er afleiðing af breytingum á vinnumarkaði og breytingum í atvinnuþróun og það er skylda okkar allra að mennta fólk til nýrra starfa. En hver eru skilaboð Íhaldsflokksins? Ja, þetta er bara þinn vandi. Það er verið að sjúkdómsvæða atvinnuleysið, gera það að einstaklingsbundnum vanda og ég bið hv. þingmann að sanna til með mér að þess er skammt að bíða að þessa sjáist stað líka í tillögum Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera kominn í hugmyndafræðilegan eftiröpunargang með Íhaldsflokknum eins og aldrei fyrr.