145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar fjallað er um Ríkisútvarpið þessa dagana og reynt að ráða í hvað er að gerast í Stjórnarráðinu þá er það eins og að rýna inn í kínversk stjórnmál fyrr á tíð, reyna að átta sig á hvar þræðirnir liggja og hverjir það eru sem raunverulega hafa áhrif. (Gripið fram í: Og hverjir eru komnir í …) Ég hef ekki alltaf verið sáttur við Ríkisútvarpið og ekkert okkar hefur alltaf verið í sátt við alla fjölmiðla í landinu. Það á við um alla fjölmiðla vegna þess að þar er margt fólk, þar eru margir þættir, það eru fréttamenn o.s.frv., menningarefni sem við höfðum mismunandi sjónarmið til o.s.frv. Í seinni tíð hefur verið farið illa með margt starfsfólk, ágætisstarfsfólk hefur verið látið víkja án þess að við höfum fengið fyrir því skýringar sem við teljum okkur eiga rétt á, ég tel að við eigum rétt á sem eigendur þessarar stofnunar.

En mér er óskiljanlegt hvernig stendur á því að ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) sameinast gegn hæstv. menntamálaráðherra í því að tillögur hans nái fram að ganga.