145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er ósáttur við að það fyrirkomulag verði innleitt sem hvati í allt heilbrigðiskerfið, ég er ósáttur við það. Ég gerði hins vegar grein fyrir því í ræðu minni að að sjálfsögðu þyrfti að taka mið af eftirspurn og þörf í fjárveitingum til heilbrigðisstofnananna. Þar með í þeim skilningi værum við að tala um að fjármagn fylgdi sjúklingi, í þeim skilningi, það þarf að taka tillit til þeirra sjónarmiða. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því hvort við eigum að innleiða þetta sem hvata í kerfið almennt.

Hv. þingmaður áttaði sig ekki á eins og hann orðaði það afstöðunni til umboðsmanns Alþingis. Það er mjög skýrt. Við erum að tala um að það þurfi 15 millj. kr. til viðbótar frá því sem lagt er til … (Gripið fram í.) Hann segist ekki átta sig á einhverju sem hann er að spyrja mig um og ég er að reyna að svara því, hann áttar sig ekki á því hver er brotalömin. Ég segi að við teljum að það þurfi 15 millj. kr. til viðbótar til viðbótar til að umboðsmaður geti sinnt frumkvæðismálum. Ég sagði hins vegar um stofnunina sem slíka að þrengt hefði verið að henni, m.a. hefðu menn viljað sjá markvissari vinnubrögð og annars konar vinnubrögð. Ég var að segja að það hefði að mörgu leyti tekist, ég er að greina þarna á milli. Ég segi hins vegar að við þurfum þessar 15 millj. kr. til viðbótar.

Varðandi Ríkisútvarpið þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Er hann að segja að hann sé ósammála eða sammála hæstv. menntamálaráðherra hvað hans áherslur áhrærir, ef hann vildi byrja kannski á að svara þeim endanum?