145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur staðið umræða óvanalega lengi og ekki að ófyrirsynju. Ég man aldrei eftir því að fjárlagafrumvarp hafi verið lagt fram með jafn flausturslegum hætti og við höfum orðið vitni að hér. Það hefur komið fram á síðustu dögum að þrátt fyrir að fjárlaganefnd hafi verið gefinn alveg sérstaklega rúmur tími hafi menn gleymt stórum liðum sem jafnvel hlaupa á yfir þúsund milljónum kr. sem gefur auðvitað tilefni til að ræða málið miklu betur en verið hefur.

Hér hafa í tengslum við fjárlagaumræðuna óhjákvæmilega spunnist líka harðar umræður um þá grimmúðlegu meðferð sem hæstv. ríkisstjórn hefur í frammi gagnvart öldruðum og öryrkjum. Menn í þingsölum, a.m.k. stjórnarandstaðan og stöku þingmaður stjórnarliðsins, eru auðvitað yfir sig hissa, undrandi, sárir, ævareiðir yfir því að aldraðir og öryrkjar séu eini hópurinn í samfélaginu sem fær ekki greiddar bætur með afturvirkum hætti, allir aðrir fá það. Ég velti því fyrir mér af því að hv. þingmaður er reyndur maður: Telur hann að það sé kannski hugsanlegt að aldraðir og öryrkjar hafi gleymst og þetta sé bara tilviljun eða telur hv. þingmaður að þarna sé hæstv. ríkisstjórn að sýna sitt rétta andlit gagnvart öldruðum og öryrkjum?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hann, eftir að stjórn Landspítalans hefur með jafn skilmerkilegum hætti gert grein fyrir sínu máli og þörfinni fyrir 3 milljörðum meira til Landspítalans til að hægt sé að reka hann sómasamlega, koma til greina að stjórnarandstaðan hætti umræðum um fjárlagafrumvarpið fyrr en ríkisstjórnin hafi eitthvað gefið eftir í því máli? Erum við ekki að tala máli réttlætis og sanngirni, hv. þingmaður?