145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er margt að ræða í þessu máli, enda fjárlagafrumvarpið stærsta frumvarp sem árlega er borið fram á Alþingi. Við höfum náttúrlega orðað það hér fyrr í vetur að við værum að tala um stærstu málin sem voru til að mynda stöðugleikaframlagið þegar menn heyktust á stöðugleikaskattinum og sömdu frekar við höfuðóvini sína sem þeir höfðu kallað hrægamma, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Hrægamma.) Þeir kölluðu þá hrægamma. Þeir heyktust á að leggja á þá 39% skatt. Í staðinn flykkjast nú kröfuhafar til landsins til að samþykkja nauðasamninga sem verða þá þessi stöðugleikaframlög, sem er eitt af því sem vantar algerlega að sé gerð nokkur grein fyrir í fjárlagatillögunum hér. Vissulega er það svo að þau framlög eiga ekki að vera til þess að nota í hversdagsleg málefni heldur til að greiða niður skuldir, en engu að síður hefði maður gert ráð fyrir því að eitthvað yrði meira getið um þau í þessu frumvarpi. Svo er ekki.

Það eru mörg frumvörp sem koma fram þessa dagana einmitt um ríkisfjármálin. Við höfum verið að ræða opinber fjármál. Við ræddum í vor ríkisfjármálaáætlun. Fjármálaráðherrann kvartar yfir því að fjárlögin séu ekki rædd og borin saman við ríkisfjármálaáætlunina sem lögð var fram í vor. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvort hann vildi hrós fyrir það að ríkisfjármálaáætluninni væri framfylgt í frumvarpinu. Vissulega virðist mér eftir þær breytingartillögur sem hér liggja frammi að útkoman af ríkissjóði sé ekki jafn góð og lagt var upp með, afgangur verði ekki eins mikill og lagt var upp með í vor í ríkisfjármálaáætluninni. Það er þrátt fyrir að tekjur séu að aukast.

Ég vil segja almennt og yfirleitt um þessa ríkisfjármálaáætlun að ég held að ég fagni því í hvert sinn sem fjárlög verða ekki í samræmi við þá áætlun, vegna þess að sú áætlun endurspeglar svo greinilega efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem er sú að skera niður í hinum sameiginlegu verkefnum, skera niður í velferðarkerfinu, menntakerfinu, í heilbrigðismálum og hvað það er allt saman sem fellur undir velferðarkerfið. Ætlunin í ríkisfjármálaáætlun er að draga saman samneysluna í landinu. Hún á að vera komin niður í 23% árið 2017 eða 2018. Þetta finnst mér mjög alvarlegt. Ég undraðist það mjög í vor þegar við ræddum þetta mál að þá stóðum við hér ein mestan part, þingmenn stjórnarandstöðunnar, og töluðum um þessa ríkisfjármálaáætlun og lítið heyrðist í þeim sem styðja ríkisstjórnina, sérstaklega saknaði ég þingmanna Framsóknarflokksins sem gefa sig gjarnan út fyrir að vera fólk samvinnu, jafnvel stundum að hafa einhvers konar jafnaðarmannatilfinningu í hjarta sínu. Hins vegar sátu þau þá þegjandi hjá og sitja enn þegjandi hjá og styðja ríkisstjórn sem stefnir að því mjög einbeitt að draga úr velferðarmálunum, grunnstoðunum, því sem ég og flokkssystkini mín teljum eðlilegt að ríkið eða við öll stöndum sameiginlega að. Það er hin mikla ríkisfjármálaáætlun sem hæstv. fjármálaráðherra saknar að við berum fjárlagafrumvarpið saman við, sem beinist að því að samneyslan verði hvorki meira né minna en 40 milljörðum lægri árið 2019 en hún er í dag.

Í ríkisfjármálaáætlun er eins og í forsendum fyrir þessu frumvarpi það hvernig tekna er aflað, sem raungerist í bandorminum, sem við köllum svo sem venjulegt fólk skilur náttúrlega ekki, en það eru þær forsendur sem fjárlagafrumvarpið byggir á, þar á meðal tekjuöflunin. Í því frumvarpi er lagt til að á tveimur árum verði horfið frá þrepaskiptu skattkerfi hér á landi og farið úr þremur þrepum í tvö þrep. Hvað þýðir það? Það þýðir að skattar lækka á þá sem hafa hæstar millitekjurnar. Þeir lækka mest á það fólk sem hefur háar tekjur. Þeir lækka meira að segja skattbyrðina á þá sem hafa hæstu tekjurnar í landinu en minna á hina sem eru í lægstu tekjuflokkunum. Þá segir hv. fjármálaráðherrann gjarnan að það sé ekkert að marka vegna þess að það fólk borgi enga skatta vegna þess að þau opinberu gjöld sem það fólk greiði renni í útsvar. Og nú á að hækka útsvarið. Það verður þá væntanlega enn þá fleira fólk í augum hv. ráðherrans sem borgar enga skatta af því að það borgar útsvar. Eins og fólkinu sem ekki hefur nóg og nær varla endum saman sé ekki slétt sama, virðulegi forseti, ég ætla að segja það, hvort þau opinberu gjöld sem það greiðir renna í sveitarfélögin eða beint í ríkiskassann.

En fyrst ég er að tala um þetta kemur það inn á það sem hefur reyndar verið nefnt varðandi þetta frumvarp sem er að það er að mörgu leyti ófullbúið. Þess vegna höfum við kallað eftir að umræðan verði stöðvuð og málið tekið aftur inn til nefndarinnar og frumvarpið fullklárað. Núna fyrir helgina náðist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um breytta tekjuskiptingu, sem var nauðsynleg, 1,5 milljarðar sem eiga að renna til viðbótar til sveitarfélaganna. Það er nauðsynlegt. Ég fagna því vissulega að það samkomulag hefur nú náðst, ekki veitir af að sveitarfélögin geti sinnt þessum málaflokki. En það breytir ekki því að það gerir þetta fjárlagafrumvarp sem við eigum að vera að fjalla um og samþykkja ófullburða. Þess vegna tek undir það sem áður hefur verið nefnt í þessari umræðu að við stöðvum umræðuna og málið fari aftur til nefndarinnar og að frumvarpið verði fullklárað. Til viðbótar við þetta bætast þessir 1,2 milljarðar eða meira vegna þess að það gleymdist að taka tillit til kennarasamninganna. Það er nánast óskiljanlegt að þeir sem ráða ferðinni í þingsal og stjórna skuli ekki sjá í hendi sér hvað það mundi liðka fyrir öllum störfum ef nefndin kæmi saman og frumvarpið færi í það horf að það væri meira fullburða en það í rauninni er.

Allt er þetta svolítið kostulegt, ekki síst í ljósi þess að formaður fjárlaganefndar fór hér mikinn fyrr í vetur og taldi að þingið kæmi allt of snemma saman, það væri alveg óþarfi að þingið kæmi eins snemma saman eins og raun bæri vitni vegna þess að það hefði ekkert að gera, skildist mér á hv. formanni fjárlaganefndar. Nú er það vissulega svo að þingið getur ekki komið saman fyrr en var í haust. Þingið á að koma saman annan þriðjudag í september. Annar þriðjudagur í september var núna 8. september. Formaður fjárlaganefndar hefur vissulega haft allan þann tíma og lengri en nokkru sinni fyrr til að skila inn til 2. umr. fullbúnu frumvarpi en ekki hálfköruðu eins og raun ber vitni.

Þrátt fyrir að þetta sé svona og við tölum um þetta var kvartað mikið yfir því í upphafi þessa fundar í dag að hér væri stundað málþóf. Hæstv. forsætisráðherra sagði: Þið getið talað eins og ykkur sýnist, við bjóðum ykkur ekki neitt. Hvað voru þeir að segja? Bjóða okkur í stjórnarandstöðunni? Hvers erum við fyrst og síðast að krefjast í umræðunni? Við erum fyrst og síðast að krefjast þess sem við töluðum líka um í fjáraukalögunum og það er að aldraðir og öryrkjar sitji við sama borð og við öll hin í þessu landi þegar kemur að launahækkunum. Það er það sem við krefjumst. Við segjum við ríkisstjórnina: Hækkið bætur aldraðra og öryrkja frá 1. maí um sömu prósentu og aðrir fengu hækkanir 1. maí sl. Það er það sem við biðjum um. Svo biðjum við um að í framhaldi af því verði fjárlagafrumvarpið lagað að þeim kauphækkunum sem búið er að semja um fyrir fólk á vinnumarkaði á næsta ári. Þá segir forsætisráðherrann: Við bjóðum ykkur ekki neitt. Það er eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson orðaði það áðan, þetta þýðir að forsætisráðherrann er að segja við aldraða og öryrkja: Við bætum engu við. Það verður ekkert af því sem stjórnarandstaðan er að tala um, það verður ekkert gefið eftir í því, það verða engar afturvirkar greiðslur frá 1. maí, það verða 9,7% 1. janúar 2016 í staðinn fyrir tíu komma eitthvað prósent 1. maí 2015. Síðan eigum við væntanlega að færa öldruðum og öryrkjum þau skilaboð að þeir bjóði þeim ekki neitt, vegna þess að þetta er helsta krafan sem við höldum á lofti, virðulegi forseti. Þetta kallaði forsætisráðherrann yfir þingsal í dag, af þeirri hógværð sinni sem hann sýnir stundum eða kannski hitt þó heldur, meðan aldraðir og öryrkjar stóðu hérna fyrir utan og minntu á að þeir hefðu verið skildir eftir, að þessi ríkisstjórn ætlar að skilja þetta fólk eftir. Síðan er æpt um málþóf og eitthvað svoleiðis. Þessum mönnum virðist vera alveg sama um fólk. Hv. fjármálaráðherra sagði þetta í útvarpsþætti í gær og endurtók það hér í morgun: Það verður engin viðbót til aldraðra og öryrkja. Þess vegna mætti kannski segja að við ættum bara að segja sem svo: Jæja, þeir segja þetta, þessir ágætu ungu menn. Vegna þess að það er ein sorgin í þessu öllu saman að hér er ríkisstjórn ungs fólks sem mér finnst verri en gömlu karlarnir fyrir 20 eða 30 árum. Þau eru verri en þeir og líta stærra á sig og skilja ekki að það að vera ráðherra er ekki að ráða yfir öðrum, að vera ráðherra er að þjóna fólkinu í landinu og hugsa um fólkið í landinu en ekki um sjálfan sig og sína upphefð og sinn rass, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti. Þetta unga fólk skilur það því miður ekki. Það botnar ekkert í því og heldur að þetta snúist allt um að vera á flottum bílum og rigsa um og láta rigna upp í nefið á sér. Því miður er það svo að mínu mati, virðulegi forseti. Allt er þetta samt svo sem ágætisfólk, þannig. En ekki fara þau vel með valdið. Það er alveg ljóst.

Síðan eru það nokkur atriði önnur en aldraðir og öryrkjar sem ég vil koma inn á og um það hvernig fé er veitt til þeirra málaflokka. Fyrst vil ég tala um heilbrigðiskerfið. Það var rætt um heilbrigðiskerfið hérna áðan og hv. þm. Ögmundur Jónasson átti í orðaskiptum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson. Það sem mig langar að segja um fjármögnun á heilbrigðiskerfinu er þetta: Það er algerlega nauðsynlegt að sama kerfi gildi fyrir sjálfstætt starfandi lækna og sjúkrastofnanir í landinu. Við erum með og ætlum að vera með opinbert heilbrigðiskerfi. Þá gengur ekki að sjálfstætt starfandi læknar, hvort heldur þeir eru sérfræðingar í hjartasjúkdómum eða í heimilislækningum, og þær læknastofur sem þannig vinna séu fjármagnaðar með því sem kallað er að fjármagn elti sjúklinginn, en að opinberu sjúkrastofnanirnar séu í einhverju allt öðru kerfi. Það gengur ekki að búið sé að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi lækna um það að ef sjúklingum fjölgi fái þeir greitt allt upp í topp en ef sjúklingum fjölgar á opinberu stofnununum fá þær ekki greitt upp í topp. Landspítalinn segir að hann þurfi 1,7% í viðbót til að annast bara það að þjóðin er að eldast. Það dugir náttúrulega ekki að loka augunum fyrir því og segja að það verði að taka það af einhverju öðru. Auðvitað verður Landspítalinn að fá greitt samkvæmt því, alveg eins og sjálfstætt starfandi læknar fá greitt ef aðsóknin eykst, ef svo má að orði komast. Það verður að vera sama kerfið. Annað gengur ekki upp.

Það hefur dregist í fjöldamörg ár að hefja byggingu nýs Landspítala sem hefði náttúrlega þurft að gerast fyrir löngu síðan. Af hverju var það? Það hefur svo sem ekkert mikið upp á sig að vera að rifja það upp en ein ástæða þess er sú að menn gátu ekki komið sér saman um hvar Landspítalinn ætti að vera. Samt sem áður eru einar þrjár nefndir sem hafa skoðað það. Allar komust þær að sömu niðurstöðu, að Landspítalanum yrði best komið fyrir niðri við Hringbraut. Engu að síður er jafnvel forsætisráðherrann sjálfur að tala um að þetta sé vitlaus staðsetning og það þurfi að skoða þetta upp á nýtt, það þurfi að gera þetta og hitt. Það vita allir sem eitthvað þekkja til þessara mála og eitthvað hafa hugsað um þau að ef það á að fara að skoða nýja staðsetningu þýðir það um 15 ára bið í viðbót. Allt þetta hefur nú gerst, samt sem áður, fyrir mörgum árum; það hefur verið reiknað út að það sé svo dýrt að hafa spítalann á tveimur stöðum, aðallega tveimur, ég held að spítalinn sé reyndar á 17 eða 19 stöðum hér í bænum en að vera með meginstarfsemina á tveimur stöðum og svo öllum hinum 15 þá. Fyrir einhverjum árum síðan, fjórum, fimm árum, var sagt að það mundi spara spítalanum 2,2 milljarða á ári ef öll starfsemin yrði á sama stað. Þá man ég eftir að einhver spekingurinn sagði í þingsal: Eins og útgjöld til heilbrigðismála mundu ekki halda áfram að hækka ef það yrði. Jú, auðvitað mundi það gerast. Það sem var verið að tala um var að ef þú ert á sama stað og með sömu starfsemi alla á einum stað í stað tveggja er það sparnaður. Þá þýðir það í venjulegum útreikningum að miðað við að spítalinn velti 50 milljörðum á ári er þetta töluverður sparnaður, miðað við status quo. Þar fyrir utan er hlálegt að þetta hafi dregist svona lengi, því að hvað mun spítalinn kosta? Hann mun kosta kannski 80 milljarða og reksturinn er 50 milljarðar. Ef við erum að kaupa okkur húsnæði og erum með 10 milljónir, eða setjum það niður í 5 milljónir, ég veit að það er ekki auðvelt að kaupa sér húsnæði ef maður er með 5 milljónir á ári í kaup en ef maður er með 5 milljónir og húsið kostar 8 er það ekkert svakalega óyfirstíganleg fjárfesting. Það er því undarlegt að okkur skuli hafa tekist að láta líta svo út í mörg ár að það sé óyfirstíganleg fjárfesting að byggja nýjan spítala, sem yrði ekki aðeins ódýrari í rekstri heldur líka öruggari. Það er eitt af því sem eru mest vandræði með núna, eða ekki vandræði því að auðvitað sér starfsfólk spítalans um að sjúklingar séu öruggir, en það þarf að leggja miklu meira á sig við þessar aðstæður en ef við værum með fullkomið sjúkrahús. Sem betur fer horfir það nú til bóta. Brátt verður hafist handa við að byggja nýtt sjúkrahús. Ég trúi því að við fögnum því flest.

En aðeins í lokin um þetta. Ég held að það sé rétt hjá mér að í viðhald á Landspítalanum séu ætlaðar 470 milljónir eða eitthvað í þá veruna, ekki mikið meira en það. Það hefur verið bent á það á undanförnum dögum að ef Fasteignir ríkisins sæju um öll húsin sem Landspítalinn á, eins og mörg ríkisfyrirtæki gera, leigja af Fasteignum ríkisins og þá sjá Fasteignir ríkisins um allt viðhald og sjá um að allt sé í lagi, þá þyrfti að borga í leigu held ég 1,2–1,3 milljarða. En það er engin tenging þarna á milli. Húsnæðið er, eins og menn vita, óheilsusamlegt. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala sífellt og endalaust um að það hafi verið borgað svo mikið til Landspítalans undanfarin ár. Því miður þurfti að skera mikið niður hjá Landspítalanum í hruninu. Ég held að Landspítalinn hafi gert mjög vel þar fyrstu árin. En það var gengið of langt. Það tekur tíma að vinna það upp. Við þurfum að sjá til þess að það verði gert. Þetta er þjóðarsjúkrahús, sem menn kalla gjarnan svo og mér finnst fallegt orð yfir Landspítalann, annars þykir mér svo vænt um orðið Landspítali að mér finnst óþarfi þegar menn tala um þjóðarsjúkrahúsið en það er flott orð og rétt að nota það líka.

Síðan ætla ég aðeins að minnast á Ríkisútvarpið. Mér finnst furðulegt að menn sem fylgjast með pólitískri umræðu og skrifa um hana og hundelta fólk stundum um skrýtin atriði — ég skil ekki hvað gengur á í ríkisstjórninni með Ríkisútvarpið. Er það virkilega svo að menntamálaráðherrann nær frumvarpi um það að útvarpsgjaldið verði óbreytt á næsta ári frá því í ár, 17 þús. og eitthvað kr. í nefskatt, ekki í gegn hjá ríkisstjórninni? Stendur hæstv. fjármálaráðherrann ekki með flokksbróður sínum í að koma þessu frumvarpi í gegn? Mér finnst það algerlega ótrúlegt. Framsóknarmennirnir töluðu margir þannig fyrr í haust að við þyrftum ekkert að óttast að það yrði gengið hart að Ríkisútvarpinu, það væri mjög nauðsynlegt. Ég minnist þess að hafa heyrt hv. þm. Ásmund Einar Daðason tala um að það væri engin hætta á að gengið yrði hart að Ríkisútvarpinu. En við horfum upp á annað. Það veldur mér vonbrigðum. Ég veit ekki hvort ég á að segja að það komi mér á óvart, en ég hélt að menn væru meira tryggir félögum sínum í ríkisstjórninni en það að láta menntamálaráðherrann leggja fram frumvarp af þessu tagi, sem auðvitað skiptir miklu máli fyrir hann að koma í gegnum ríkisstjórnina, og þeir ætli að stoppa það af. Mér finnst það alveg furðulegt.

Síðan má ræða ýmislegt sem eru kannski ekki jafn miklar fjárhæðir í og í þeim liðum sem ég hef fjallað um hingað til; aldraða og öryrkja, Landspítalann, Ríkisútvarpið. Tökum til dæmis þessa svokölluðu safnliði sem við vorum að bögglast með á síðasta kjörtímabili og gátum komið því þannig við að pólitíkusar væru ekki með puttana í því að úthluta peningum hingað og þangað heldur færu þeir inn í ráðuneytin og yrði úthlutað þaðan af þeim sem til þekkja, sem þekkja inn á þau verkefni sem við eiga hverju sinni, en það væru ekki pólitíkusar með puttana í því og að hygla, ég vil leyfa mér að segja vinum og vandamönnum þó að það eigi nú ekki að segja það, hygla kjósendum sínum og kjördæmum sínum sérstaklega. Nú er búið að færa þetta að hluta til aftur til baka. Fjárlaganefndin er aftur farin að úthluta hingað og þangað. Það er þannig að það virðist mest vera úthlutað í Norðvesturkjördæmi. Það er kannski vegna þess að einhverjir þingmenn sem hafa mikil ítök í fjárlaganefnd eru einmitt úr Norðvesturkjördæmi. Nú ætla ég ekki að segja að það sé ekki þörf á þeim peningum þar. Ég ætla ekki að setjast í dómarasæti um það, en það á alls ekki að ákveða það með þessum hætti. Það er mikil afturför og í rauninni hlægilegt að þetta sé að gerast á sama tíma og sömu dagana og fjárlaganefndin virðist hafa verið að ákveða einhverjar úthlutanir fyrir hádegi og eftir hádegi farið að fjalla um frumvarp um opinber fjármál. Áttar fólk sig ekki á því fyrir hádegi hvað það er að gera eftir hádegi? Kannski væri nær að það væri þá með opinber fjármál fyrir hádegi þannig að það hefði hugmynd um það eftir hádegi hvernig fara eigi að í meðferð um opinber fjármál og hvernig þeim fjármunum er úthlutað.

Síðan eru það hlægilegir hlutir sem margir hafa nefnt eins og þær 75 milljónir sem eru veittar til Alþingis til að fara í samkeppni um byggingu á Alþingisreitnum. Þá segir virðuleg fjárlaganefnd að það eigi að fara eftir meira en 100 ára teikningu þess mæta manns Guðjóns Samúelssonar. Þessi tillaga komst aldrei til þings. Hún var lögð fram í ríkisstjórninni 1. apríl. Það héldu margir fram eftir degi að þetta væri með skemmtilegri aprílgöbbum, ríkisstjórnin væri ekki alveg „humorforladt“. Það kom í ljós að svo er ekki. Svo er þetta tekið upp í fjárlagafrumvarpinu. Eins og hefur komið fram margsinnis í ræðum hefur það engan mátt og fólk á ekkert að taka mark á því heldur líta fram hjá þessari skrýtnu setningu.

Mig langar í restina að koma að umboðsmanni Alþingis sem vakti athygli mína á síðasta kjörtímabili en þá sat ég í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og gerði það reyndar fram til síðasta vors. Það vakti athygli mína á síðasta kjörtímabili þegar var mikið dregið saman alls staðar og skorið niður að umboðsmaður Alþingis stóð alltaf við sitt. Það var ekkert sjálfgefið að skorið væri niður hjá stofnunum og þær færu eftir því sem þeim var úthlutað. En umboðsmaður Alþingis gerði það alltaf. Nú kemur fjárlaganefndin og vill skera niður um 13 milljónir hjá þeirri ágætu stofnun. Mér skilst að það sé út af því að umboðsmaður sé kominn í hagstæðara húsnæði. Samt sem áður hafa áhrif umboðsmanns og hvað þau geta verið góð og mikil kannski sjaldnast endurspeglast betur en á síðasta ári þegar umboðsmaður tók að sér að skoða afskipti innanríkisráðherra af lögreglustjóraembættinu og fleirum í frumkvæðisathugun. Það er einmitt það sem menn hafa sagt og þess vegna leggur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fjárframlög til þessa embættis verði hækkuð um 15 milljónir, til þess að embættið geti betur sinnt frumkvæðismálum. Mér finnst undarlegt hvernig fjárlaganefndin stendur að tillögum sínum varðandi það mikilsverða embætti.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.